Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu

Fimmtudaginn 28. maí 1998, kl. 10:29:51 (7068)

1998-05-28 10:29:51# 122. lþ. 135.4 fundur 359. mál: #A rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu# frv. 57/1998, SvG (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 122. lþ.

[10:29]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Við þingmenn Alþb. og óháðra höfum lýst harðri andstöðu við það frv. sem kemur nú til lokaafgreiðslu í þinginu. Í fyrsta lagi vegna þess að verið er að afhenda landeigendum öll auðæfi í jörðu hver svo sem þau eru inn að miðju jarðar ef svo vill verkast. Í öðru lagi vegna þess að umhverfissjónarmiðum er hafnað í frv. eins og það lítur út og það er mjög alvarlegur hlutur og ég bendi á að hafnað hefur verið tillögum um lagfæringu á umhverfisþættinum af hálfu minni hlutans þar sem afstaða stjórnarliðsins sýnir ótrúlega ósanngirni og skilningsleysi á mikilvægi umhverfis- og skipulagsmála að því er þessa hluti varðar. Við teljum að með þessu frv., ef það verður að lögum sem allt bendir til, sé verið að afhenda landeigendum verðmæti upp á milljarðatugi og við áskiljum okkur allan rétt til að koma aftur að málinu strax á næsta þingi til að knýja á um að sett verði lög og reglur í þessu landi eins og öllum öðrum löndum um takmarkanir á eignarrétti á auðæfum ofan í jörðinni. Það er algerlega fráleitt að ganga þannig frá máli af þessu tagi. Við teljum þetta eitt versta mál þingsins, einn versta gjörning stjórnarmeirihlutans. Ég segi nei, herra forseti.