Skipting aukinna aflaheimilda

Fimmtudaginn 28. maí 1998, kl. 12:56:37 (7093)

1998-05-28 12:56:37# 122. lþ. 136.96 fundur 424#B skipting aukinna aflaheimilda# (aths. um störf þingsins), GE
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 122. lþ.

[12:56]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir með þeim sem hér hafa talað og fagna þeirri aukningu sem blasir við samkvæmt tillögum Hafrannsóknastofnunar. Ég vildi gjarnan spyrja hæstv. sjútvrh. hvort hann hafi velt fyrir sér stöðu þeirra aðila sem hafa haft lífsafkomu sína af grásleppuveiðum þar sem verðfall er um helming og veiðihrun má nánast segja er við Faxaflóann. Eru einhverjar hugmyndir komnar um það hvernig mæta eigi þeim erfiðleikum sem þeir aðilar hafa orðið fyrir og eru fyrirsjáanlegir vegna þessa atriðis? Þetta er í þriðja skipti sem ég nefni þetta mál úr þessum ræðustóli en ég hef ekki orðið var við neinar aðgerðir eða að nokkuð hafi verið skoðað til að koma á móti þessum aðilum. Það er kjörið tækifæri nú til að velta fyrir sér hvort ekki sé ástæða til að koma til móts við þá aðila sem eiga afkomu sína undir þessum veiðum m.a.

Einnig er rétt að nefna að þeir sem eru á bátum með aflamarki undir 6 tonnum voru skertir með lögunum frá því í desember. Þetta eru aðilar sem hafa gengið í gegnum það að fá skerðingu á aflaúthlutun sína en fengu síðan ekki uppbótina, 1.500 kg uppbótina sem bátar með 6 og upp í 10 tonna afla og þar yfir fengu við síðustu úthlutun. Þarna er gat í kerfinu. Þarna eru menn sem eru búnir að ganga í gegnum skerðingu en hafa síðan ekki fengið bætur á móti. Ég spyr hvort eitthvað sé í farvatninu.