Skipting aukinna aflaheimilda

Fimmtudaginn 28. maí 1998, kl. 13:00:54 (7096)

1998-05-28 13:00:54# 122. lþ. 136.96 fundur 424#B skipting aukinna aflaheimilda# (aths. um störf þingsins), RG
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 122. lþ.

[13:00]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Þetta voru skýr svör. Það kemur ekkert frv. frá ríkisstjórninni um breytingu á fiskveiðilögunum en sjútvrh. er alveg til í að ræða þingmálið ef það kemur fram með þinglegum hætti, sem væntanlega þýðir að ef stjórnarandstaðan vill setja eitthvað fram þá er hann til í að tala við hana, en við vitum hvernig það er að taka undir okkar hugmyndir, það er svo annað mál.

Það er gleðilegt, herra forseti, að svona góður tími skuli vera orðinn hjá okkur að nytjastofnarnir eru farnir að rétta sig af þannig að hægt er að auka veiðarnar. En spurningin er, ekki bara hér í þessum sal heldur í þjóðfélaginu: Hverjir fá veiðiheimildir? Á að útdeila þeim ókeypis til þeirra sem eru heimildarhafar fyrir? Það er gott og blessað. Er það þannig sem ríkisstjórnin ætlar að hafa það? Þessi ríkisstjórn sem vill að allt sé á fárra höndum. Spurningin í þjóðfélaginu verður: Hve lengi ætlar ríkisstjórnin að gefa frá sér veiðiheimildirnar, óveidda fiskinn sem þjóðin á, og úthluta þeim til fárra? Það verður spurningin, ekki bara í þessum sal --- enda erum við að fara heim eftir viku --- heldur um allt þjóðfélagið.