Skipting aukinna aflaheimilda

Fimmtudaginn 28. maí 1998, kl. 13:02:21 (7097)

1998-05-28 13:02:21# 122. lþ. 136.96 fundur 424#B skipting aukinna aflaheimilda# (aths. um störf þingsins), EKG
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 122. lþ.

[13:02]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegur forseti. Ég held að það sé rétt að menn hafi hlutina í réttu samhengi. Árum og áratugum saman byggði þessi þjóð afkomu sína á því að hér væri hægt að draga úr sjónum 300--400 þús. tonn af þorski árlega. Þær útgerðir og þeir útgerðarstaðir sem urðu fyrir mestri skerðingu þegar ákvörðun var tekin um að færa leyfilegt aflamark niður fyrir 200 þús. tonn, niður í 150 þús. tonn, eru nú að sjá fram á örlítið skárri tíð með því að tekin er ákvörðun um að fara upp undir 250 þús. tonn af fiski. Þá fara menn að tala um það sem sérstakt réttlætismál að koma í veg fyrir að þær útgerðir, útgerðarstaðir og þessir sjómenn fái þær aflaheimildir til að vinna með heldur eigi í nafni réttlætisins að bjóða þetta allt saman upp. Það er alveg rétt sem hv. þm. Gísli S. Einarsson sagði áðan að ýmsir útgerðarflokkar eins og t.d. kvótabátarnir undir 6 tonnum hafa farið mjög illa út úr þessu. Halda menn virkilega að þeir ættu auðvelt með að keppa á einhverjum uppboðsmarkaði ef ætti að fara að bjóða þetta upp? Ég verð að játa að mér finnst þetta afar sérkennileg réttlætiskennd sem kemur fram hjá sumum talsmönnum sem hér hafa talað, en ég tek skýrt fram --- ekki frá hv. 5. þm. Vesturl. sem að sjálfsögðu þekkir vel til aðstæðna í kjördæmi sínu sem m.a. hefur orðið mjög illa fyrir barðinu á þessari miklu skerðingu sem orðið hefur á undanförnum árum.