Skipulag ferðamála

Fimmtudaginn 28. maí 1998, kl. 13:32:10 (7103)

1998-05-28 13:32:10# 122. lþ. 136.12 fundur 546. mál: #A skipulag ferðamála# (ferðaskrifstofur) frv. 73/1998, Frsm. EKG
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 122. lþ.

[13:32]

Frsm. samgn. (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. á þskj. 1321 ásamt brtt. á þskj. 1322, við frv. til laga um breytingu á lögum um skipulag ferðamála, nr. 117/1994.

Með frumvarpinu er lagt til að settar verði skýrari reglur um rekstur ferðaskrifstofa hér á landi, svo sem um ferðaskrifstofuleyfi og fjárhæð tryggingar.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali. Þær eru eftirfarandi:

1. Lagt er til að a-liður a-liðar 1. gr. falli brott og er skilgreiningu á hugtakinu ferðaskrifstofa þar með breytt. Í ljósi þeirra breytinga sem orðið hafa á sviði upplýsingamiðlunar leggur nefndin til að ekki þurfi ferðaskrifstofuleyfi til að gefa upplýsingar um ferðir innan lands og erlendis. Samhliða þessu er b-lið a-liðar 1. gr. breytt á þann veg að ef upplýsingagjöfinni fylgir umboðssala með farmiða sé um ferðaskrifstofu að ræða.

2. Lagt er til að felld verði brott orðin ,,a- og b-lið`` úr h- og i-lið 1. gr. frumvarpsins þar sem ætlunin er að vísa einnig til c-liðar 19. gr. á báðum stöðum og því nægjanlegt að vísa einungis til 19. gr.

3. Þá er lagt til að lágmark tryggingar skv. h-lið 1. gr. verði lækkað í 1 millj. kr. Nefndin telur að með því sé komið til móts við sjónarmið ýmissa smærri aðila sem standa í ferðaskrifstofurekstri. Í dag er lágmarkstrygging smærri aðila 1 millj. kr. þannig að með því að breyta lágmarkinu eins og samgöngunefnd leggur til verður ekki um röskun að ræða hjá neinum aðilum.

4. Þá er lögð til orðalagsbreyting á c-lið k-liðar 1. gr. svo að skýrar komi fram að um ábyrgð viðskiptabanka eða sparisjóðs eða vátryggingu hjá vátryggingafélagi er að ræða.

Undir þetta nál. rita auk formanns og frsm. hv. þm. Magnús Stefánsson, Guðmundur Árni Stefánsson, Egill Jónsson, Árni Johnsen, Ragnar Arnalds, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, Kristján Pálsson og Stefán Guðmundsson.