Eftirlit með skipum

Fimmtudaginn 28. maí 1998, kl. 13:45:58 (7108)

1998-05-28 13:45:58# 122. lþ. 136.13 fundur 593. mál: #A eftirlit með skipum# (farþegaflutningar) frv. 74/1998, Frsm. EKG
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 122. lþ.

[13:45]

Frsm. samgn. (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Vegna orða hv. 10. þm. Reykv. vil ég aðeins segja að ég get út af fyrir sig tekið undir það með honum að eðlilegast væri að þetta skjal væri staðsett þannig að farþegum og öðrum þeim sem ganga um skipið væri ljóst hvort það uppfyllti þau skilyrði sem gerð eru varðandi slík skip. Ég get tekið undir það og get sagt sem frsm. nefndarinnar að ég tel eðlilegast að það sé gert þannig að ekkert fari milli mála.

En ég vil hins vegar í þessu sambandi aðeins vekja athygli á því að auðvitað hefur Siglingastofnun þarna miklu eftirlitshlutverki að gegna. Eftirlitið er í þessum efnum, eins og öðrum sem snúa að slíkum öryggisþáttum, lagt á herðar Siglingastofnunar. Maður verður að ætlast til þess að stofnunin sjálf sinni því að tryggja að þau skip sem stundi farþegaflutninga --- og það er alveg rétt að þetta mun verða vaxandi atvinnugrein --- uppfylli þau skilyrði sem hér er verið að leggja til.