Lögmenn

Fimmtudaginn 28. maí 1998, kl. 14:37:19 (7113)

1998-05-28 14:37:19# 122. lþ. 136.17 fundur 57. mál: #A lögmenn# (heildarlög) frv. 77/1998, KPál
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 122. lþ.

[14:37]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Frv. það sem hér liggur fyrir um lögmenn hefur fengið mjög ítarlega umræðu í hv. allshn. og það ekki á einu þingi heldur fleirum. Frv. hefur tekið verulegum breytingum. Allt hefur þetta verið í mjög góðu samkomulagi við þá sem eftir því þurfa að starfa sem eðlilegt er en innan eðlilegra marka að sjálfsögðu. Fyrir liggur þetta frv. sem ég hef samþykkt en hef þó lagt verulega áherslu á eitt atriði varðandi þá grein í frv. sem snýr að eignaraðild í lögmannastofum. Það er c-liður 14. brtt., sem er við 19. gr., en þar segir svo, með leyfi forseta:

,,Ráðherra getur heimilað, að fenginni umsögn Lögmannafélags Íslands, að aðrir en þeir sem nefndir eru í 4. mgr. geti átt eða rekið félag um skrifstofu lögmanns svo fremi að sérstakar ástæður mæli með því.``

Í nál. er sagt um þetta atriði, með leyfi forseta:

,,Loks leggur nefndin til að ráðherra geti í einstökum tilfellum veitt undanþágu frá ákvæðinu og heimilað, að fenginni umsögn Lögmannafélags Íslands, að aðrir en lögmenn og þeir sem nefndir eru í nýrri 4. mgr. geti átt eða rekið félag um skrifstofu lögmanns ef sérstakar ástæður mæla með því. Sams konar undanþáguheimild er að finna í 7. mgr. 6. gr. laga um endurskoðendur, nr. 18/1997.``

Þetta ákvæði, um að sérstakar aðstæður geti leitt til þess að aðrir en lögmenn eigi hlut í lögmannstofum, hefur valdið verulegum ágreiningi innan Lögmannafélagsins. Lögmenn hafa talið að það geti leitt til þess að rýra álit lögmanna og stöðu gagnvart skjólstæðingum sínum og gert þá háða vinnuveitendum sem séu orðnir eignaraðilar í þeirra málflutningsstofu.

Ég leyfa mér að vitna hér í minnisblað frá Lögmannafélaginu, sem fjallar sérstaklega um þetta atriði, og hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Í fyrsta lagi er talin hætta á trúnaðarbroti en hlutverk lögmanna innan réttarkerfisins, þar á meðal störf þeirra í einkamálum og opinberum málum fyrir dómstólum, byggist m.a. á þeirri forsendu að þeir geti sinnt störfum sínum án utanaðkomandi afskipta eða þrýstings. Með öðrum orðum: Lögmenn verða að vera sjálfstæðir og öðrum óháðir í störfum sínum. Þetta ákvæði, um að heimila öðrum en lögmönnum að eiga lögmannsstofur, mundi veikja mjög réttaröryggi í landinu ef lögmaður þyrfti að þola að eiga á hættu afskipti eða þrýsting af hálfu gagnaðila, yfirvalda eða ólöglærðs vinnuveitanda sem ekki bæri sömu trúnaðarskyldur og ábyrgð og sjálfstætt starfandi lögmaður.

Það ógnar sjálfstæði lögmannastéttarinnar í heild sinni og þar með réttaröryggi í landinu ef aðrir en lögmenn mega eiga og reka lögmannastofur. Almenningur og fyrirtæki í landinu geta ekki treyst því að fyllsta trúnaðar sé gætt í málum þeirra þar sem lögmenn á slíkum stofum eru jafnframt bundnir vinnuréttarreglu, trúnaðarsambandi við vinnuveitanda sinn og forsvarsmenn fyrirtækisins. Lögmenn á slíkum stofum hafa jafnframt ekki fullt forræði um geymslu trúnaðargagna og meðferð fjármuna skjólstæðinganna. Slíkt er í höndum eigenda eða forsvarsmanna fyrirtækisins.``

Síðan er fjallað um vandkvæði við eftirlit, með leyfi forseta:

,,Eftir að fjárvörslureikningar voru teknir upp hér á landi, með reglum nr. 626/1995, hafa komið upp vandamál í sambandi við eftirlit. Þannig hefur verið talið að fyrirtæki sem ekki eru í eigu lögmanns eða lögmanna, en hefur lögmann í þjónustu sinni, geti ekki stofnað til fjárvörslureikninga samkvæmt reglunum. Lögmaður í þjónustu slíks fyrirtækis hefur ekki forræði á varðveislu peninga viðskiptamannanna.``

Í þriðja lagi er rætt um framsal löggjafarvalds:

,,Vísað hefur verið til lokamálsgreinar 6. gr. laga nr. 18/1997, um löggilta endurskoðendur, t.d. um hvernig hægt sé að heimila öðrum en löggiltum endurskoðendum að eiga hlut í endurskoðunarskrifstofum, þ.e. með sérstöku leyfi ráðherra svo fremi að ástæður mæli með því. Ákvæði þetta hefur þann mikla ókost að ráðherra eru ekki settar neinar leiðbeiningar um hvað eigi að miða við þegar vikið er frá þeirri meginreglu sem löggjafinn hefur sett í 6. gr. Hefur því verið haldið fram að ákvæði þetta feli í sér of mikið framsal löggjafans til framkvæmdarvaldsins.``

Herra forseti. Þessu vildi ég koma hér á framfæri við þessa umræðu til íhugunar upp á seinni tíma. Reynsluna af þessu nýja ákvæði í lögum um lögmenn mætti þá skoða með tilliti til þeirra aðvörunarorða sem hér hafa fallið eða breyta lögum, þó síðar verði, til að mæta þeim efasemdum sem fram koma í minnispunktum þeim sem ég hef hér lesið upp.