Almenn hegningarlög

Fimmtudaginn 28. maí 1998, kl. 15:17:14 (7119)

1998-05-28 15:17:14# 122. lþ. 136.19 fundur 521. mál: #A almenn hegningarlög# (fyrning sakar) frv. 63/1998, GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 122. lþ.

[15:17]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Mér er tjáð að hér sé ákveðið samkomulag um að hafa ekki langt mál núna. Ég ætla mér að halda það. Ég vil ítreka það sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir og Bryndís Hlöðversdóttir, sem skipa ásamt mér minni hlutann í allshn., hafa sagt um þá brtt. sem hér liggur fyrir. Ég tel ekki viðunandi annað en að miða við þann aldur sem lagt er til í stjfrv. Við viljum miða við 18 ár í stað 14 ára, þ.e. að fyrning hefjist við sjálfræðisaldur.

Það var farið í gegnum þessi rök í nefndinni og það liggur fyrir ítarleg skýrsla frá umboðsmanni barna. Ég verð þó að segja að ég er ánægð með að tekið sé á þessu máli í frv., en það er ekki nægilega langt gengið að mínu mati og þess vegna flytjum við þessa brtt. Að okkar tillögu felldri mun ég þó styðja stjfrv. því það er bót frá því sem nú er.