Almenn hegningarlög

Fimmtudaginn 28. maí 1998, kl. 15:18:54 (7120)

1998-05-28 15:18:54# 122. lþ. 136.20 fundur 522. mál: #A almenn hegningarlög# (afnám varðhaldsrefsingar) frv. 82/1998, Frsm. VS
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 122. lþ.

[15:18]

Frsm. allshn. (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nál. og brtt. allshn. á þskj. 1254 og 1255, um frv. til laga um breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, og um breytingar á öðrum lögum.

Nefndin hefur fjallað um frv. og fékk gesti á sinn fund vegna málsins og bárust um það umsagnir.

Í frumvarpinu er lagt til að varðhald verði fellt niður sem refsing fyrir afbrot, en einnig eru lagðar til ýmsar minni háttar lagfæringar á lagaákvæðum um refsingar.

Í frv. eru lagðar til breytingar bæði við almenn hegningarlög og ýmis önnur lög þar sem kveðið er á um varðhald sem refsingu.

Samkvæmt núgildandi ákvæðum almennra hegningarlaga má dæma menn í fangelsi ævilangt eða um tiltekinn tíma, ekki skemur en 30 daga og ekki lengur en 16 ár. Í varðhald má hins vegar dæma menn í tiltekinn tíma, sem er ekki skemmri en fimm dagar og ekki lengri en tvö ár, nema annað sé ákveðið í lögum. Auk mismunandi tímalengdar gerðu hegningarlög allt til ársins 1988 ráð fyrir nokkrum mun á inntaki þessara tveggja tegunda refsivistar.

Varðhaldsvist átti að jafnaði að taka út í einrúmi, en meginreglan um fangelsisvist var sú að hana skyldi afplána í félagi við aðra fanga. Varðhaldsfangar þurftu ekki að láta sér nægja venjulegt fangaviðurværi og máttu þeir einnig útvega sér vinnu. Þannig taldist varðhaldsvist mildari tegund refsivistar en fangelsi. Aldrei kom þó til þess í framkvæmd að refsivist væri fullnustuð í samræmi við þessi ákvæði og árið 1988 var lögfest sama réttarstaða fyrir varðhaldsfanga og þá sem afplána fangelsisrefsingu, enda samræmist slík regla nútímaviðhorfum. Sú tillaga frumvarpsins að varðhald verði afnumið sem viðurlög við refsiverðri háttsemi er því afleiðing lagabreytinga og breyttra viðhorfa og hefur í raun ekki í för með sér neina breytingu á því hvernig fullnusta refsidóma fer fram.

Nefndin leggur til að nokkrar breytingar verði gerðar á frv. en þær eru nauðsynlegar vegna lagabreytinga sem gerðar hafa verið eftir að frumvarpið var lagt fram.

Þannig leggur nefndin til að 151. gr. falli brott. Um er að ræða ákvæði í lögum um þjóðfána Íslendinga en Alþingi hefur nú til umfjöllunar frv. til laga um breytingu á þeim lögum og hefur allshn. lagt til að breyting sú sem mælt er fyrir um í 151. gr. verði gerð á lögunum í tengslum við aðrar breytingar sem lagðar eru til í áðurnefndu frv.

Í öðru lagi er lagt til að 152. gr. frv. falli brott. Í greininni er kveðið á um breytingu á lögum um stjórn flugmála, nr. 119/1950, en lagt hefur verið til að lögin verði felld brott með nýjum loftferðalögum sem nú eru til lokaafgreiðslu á Alþingi.

Þá er lagt til að 162. gr. frv. verði felld brott en í ákvæðinu eru lagðar til breytingar á lögum um loftferðir, nr. 34/1964. Eins og áður segir er frv. til nýrra loftferðalaga nú til lokaafgreiðslu á Alþingi en þar er lagt til að eldri lög um loftferðir verði felld úr gildi.

Þá er lagt til að 169. gr. frv. falli brott. Þar er kveðið á um breytingu á lögum um Hæstarétt Íslands en Alþingi hefur samþykkt að þau lög verði felld úr gildi við gildistöku dómstólalaga 1. júlí næstkomandi.

Einnig er lögð til brtt. við 174. gr. frv. Í því ákvæði er lögð til breyting á lögum um skotvopn, sprengiefni og skotelda, nr. 46/1977. Alþingi afgreiddi nú á vorþingi ný vopnalög þar sem mælt er fyrir um að eldri skotavopnalög falli úr gildi við gildistöku þeirra. Því eru lagðar til nauðsynlegar breytingar á vopnalögum og ákvæði um varðhald felld þar út.

Þá er lagt til að 200. gr. frv. falli brott, en lög um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, nr. 81/1988, voru felld úr gildi við gildistöku laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998.

Nefndin leggur einnig til breytingu á nýsamþykktum lögum um kosningar til sveitarstjórna, nr. 5/1998, í samræmi við ákvæði frv. Þannig yrði ákvæði um varðhald fellt brott og aðeins kveðið á um fangelsisrefsingu í lögunum.

Loks er lögð til breyting á 1. málsl. 2. mgr. 24. gr. laga um verslunaratvinnu, sem samþykkt voru fyrr á þessu þingi. Í stað þess að kveðið verði á um varðhald sem viðurlög, verði kveðið á um fangelsi allt að tveimur árum.

Nefndin skrifar öll undir nál. að undanskildum Hjálmari Jónssyni sem var fjarverandi við afgreiðslu málsins.