Vegáætlun 1998-2002

Fimmtudaginn 28. maí 1998, kl. 18:07:07 (7137)

1998-05-28 18:07:07# 122. lþ. 136.7 fundur 378. mál: #A vegáætlun 1998-2002# þál. 19/122, 379. mál: #A langtímaáætlun í vegagerð# þál. 20/122, MS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 122. lþ.

[18:07]

Magnús Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Það eru tvö atriði sem komu fram í ræðu hv. þm. sem ég vildi koma að. Í fyrsta lagi er ég honum alveg sammála þar sem hann ræddi um nauðsyn samræmdrar samgönguáætlunar og get tekið undir allt sem hann sagði í því sambandi. Ég vil minna á að fyrr á þessu þingi var samþykkt tillaga sem ég flutti ásamt fleiri þingmönnum einmitt um þessi efni og ég vænti þess að undir lok þessa árs liggi fyrir álit sérstaks vinnuhóps sem á að fjalla um þessi atriði. Ég vil bara segja að ég tek undir allt sem þingmaðurinn sagði varðandi samræmda samgönguáætlun.

Í öðru lagi ræddi hv. þm. um jarðgangagerð og mér fannst hann svona væna stjórnarliða um það að hafa gengið á svig við það sem lá fyrir varðandi jarðgangagerð og áform í þeim efnum fyrir nokkrum árum. En ég vil eingöngu segja að ég tel að hér liggi fyrir ákveðin stefnumótun varðandi röð jarðganga á Íslandi og ég fyrir mitt leyti hef margoft lýst því að ég styð þá stefnumótun sem gerð var fyrir nokkrum árum og þar er gert ráð fyrir því að næstu jarðgöng verði gerð á Austurlandi.