Vegáætlun 1998-2002

Fimmtudaginn 28. maí 1998, kl. 18:09:59 (7139)

1998-05-28 18:09:59# 122. lþ. 136.7 fundur 378. mál: #A vegáætlun 1998-2002# þál. 19/122, 379. mál: #A langtímaáætlun í vegagerð# þál. 20/122, HjálmJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 122. lþ.

[18:09]

Hjálmar Jónsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. 4. þm. Austurl. talaði um það í ræðu sinni að Austfirðingar hefðu verið sviknir um jarðgöng og sagði að fram undan væri kistulagning áforma um jarðgöng á Austurlandi, fram undan væri því jarðarför en ekki jarðgöng.

Ég er miklu bjartsýnni en þetta og ég sé lífið fram undan en ekki dauðann eins og hv. þm. stjórnarandstöðunnar sem hér hafa talað hafa séð. Jarðgangagerð á Íslandi verður ekki stöðvuð, jarðgöng eru raunhæfur kostur og jafnvel eini raunhæfi kosturinn á samgönguvanda sumra byggða og héraða á Íslandi og ég er þess fullviss að áfram verður haldið bæði við rannsóknir og áform um jarðgöng á næstu árum. Það kom m.a. fram í svari hæstv. samgrh. þegar langtímaáætlunin var lögð fram í vetur. Þá var verið að ræða um vegtengingu milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar, og sagði hæstv. samgrh. að hann teldi það óðs manns æði að leggja veg yfir Lágheiði ef menn ætluðu síðar í jarðgöng milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar og því væri verið að leggja fjármunina til hliðar, 680 milljónirnar sem talað var um og gert er ráð fyrir að fari í veg um Lágheiði en verði notaðar í jarðgöng milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar ef sá kostur er heppilegri.

Herra forseti. Ég hygg og veit að rannsóknir verða áfram gerðar og fé hefur þegar verið ákveðið til að gera rannsóknir á jarðgangakostum þeim sem brýnastir eru taldir. Kostina þarf að meta og þann brýnasta og hagkvæmasta þarf að velja fyrstan.