Vegáætlun 1998-2002

Fimmtudaginn 28. maí 1998, kl. 18:21:48 (7145)

1998-05-28 18:21:48# 122. lþ. 136.7 fundur 378. mál: #A vegáætlun 1998-2002# þál. 19/122, 379. mál: #A langtímaáætlun í vegagerð# þál. 20/122, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 122. lþ.

[18:21]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. sýnir mikið örlæti ef hann hugsar sér hvarvetna þar sem hann sér háa heiði að gera hvort tveggja í senn að leggja veg yfir heiðina og gat í gegnum hana.

Hv. þm. sagði áðan að ég hefði lesið tillögu þeirra alþýðubandalagsmann eins og ég færi öfugt með Faðirvorið. Ekki veit ég nema eitthvað geti nú verið til í því. En með leyfi hæstv. forseta ætla ég að lesa upp tillögugreinina í heild sinni til að menn geti glöggvað sig á hvort ég fór rangt með:

,,Alþingi ályktar að gera skuli sérstakt átak til að ljúka á næstu þremur árum uppbyggingu og lagningu bundins slitlags á vegum sem tengja heila landshluta eða fjölmenn byggðarlög við meginþjóðvegakerfið. Á næstu þremur árum verði varið allt að 2.500 millj. kr. úr ríkissjóði til þessa verkefnis, til viðbótar fjármunum af vegáætlun, með það að markmiði að árið 2000 verði allir þéttbýlisstaðir þar sem íbúar eru 100 eða fleiri tengdir þjóðvegakerfi landsmanna með vegum með bundnu slitlagi.``

Svo mörg voru þau orð. Ekki verður þetta skilið öðruvísi en svo að það sé mat hv. þm. að 2,5 milljarða vanti upp á að hægt sé að ná þeim markmiðum sem hér er lýst árið 2000. Ekki skal ég svo þreyta þingheim með að fara fleiri oðrum um þetta en ég hygg að merking tillögunnar sé ljós og sá skilningur sem hv. þm. hafa á framkvæmdamætti vegáætlunar.