Vegáætlun 1998-2002

Fimmtudaginn 28. maí 1998, kl. 18:26:13 (7147)

1998-05-28 18:26:13# 122. lþ. 136.7 fundur 378. mál: #A vegáætlun 1998-2002# þál. 19/122, 379. mál: #A langtímaáætlun í vegagerð# þál. 20/122, samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 122. lþ.

[18:26]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Ég vil við lok þessarar umræðu þakka samgn. fyrir vel unnin störf og hversu vel hefur tekist og gengið að vinna að athugun á þeim vegáætlunum sem liggja fyrir. Ég vil jafnframt taka fram að ég tel það nauðsynlegt sem næsta skref að velta fyrir sér og glöggva sig á því hvernig hægt sé að samræma áætlanir í samgöngumálum einkum þó og sér í lagi með hliðsjón af því sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson sagði áðan, með hvaða hætti við getum dregið úr mengun og hvaða ráð séu til þess að draga úr slysum, sem margir þingmenn komu hér raunar að einnig.

Loks vil ég leggja áherslu á að þessi langtímaáætlun er þannig úr garði gerð að ekki er gert ráð fyrir neinum stökkum í framkvæmdum heldur að haldið verði áfram svipuðu framkvæmdastigi og verið hefur. Ég lít því svo á að hún sé raunsæ eins og hún liggur fyrir.