Ummæli þingmanns um óundirbúnar fyrirspurnir

Þriðjudaginn 02. júní 1998, kl. 10:36:47 (7167)

1998-06-02 10:36:47# 122. lþ. 139.92 fundur 428#B ummæli þingmanns um óundirbúnar fyrirspurnir# (aths. um störf þingsins), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 139. fundur, 122. lþ.

[10:36]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Hæstv. ráðherra vitnar í viðtal við mig frá því í morgun þar sem ég sagði frá því hvernig óundirbúnar fyrirspurnir færu fram á Alþingi. Ég sagði frá því að maður tilkynnti forseta þingsins að morgni, eða fyrir fyrirspurnatímann, um hvaða málefni ætlunin væri að spyrja. Það er hátturinn í þinginu. Aftur á móti taldi ég að hann væri að afla upplýsinga um hvað spurt yrði um til þess að hægt væri að láta ráðherra vita um hvað þingmenn ætluðu að spyrja. Ég veit ekki hver annar tilgangur væri í að leita eftir upplýsingum um það sem á að spyrja um í óundirbúnum fyrirspurnum, að kalla eftir þeim upplýsingum að morgni. Sé það rétt að ráðherra sé ekki látinn vita um það, þá veit ég nú að ráðherra fær ekki að vita þetta fyrir fram, en ég vissi ekki betur. Samkvæmt því var þetta óundirbúin fyrirspurn. Það breytir engu um það að hæstv. ráðherra fór með rangt mál í þinginu, fyrir tveimur árum síðan á morgun, þegar ég spurði um málefni Landsbankans og Lindar. Hann var með upplýsingar á borðinu hjá sér um að tapið vegna þessa eina fyrirtækis, útlánatapið hjá Landsbankanum væri a.m.k. 400 millj., samkvæmt skýrslu frá Ríkisendurskoðun sem ráðherrann var með á borðinu hjá sér.

Hann var sömuleiðis með bréf frá bankaráðsformanninum, framkvæmdastjóra Sjálfstfl., þar sem sagði að þetta væri mun meira. Ég spurði þá hvort það væri rétt sem sagt væri í fjölmiðlum, að þetta væru 600--700 millj. Hann vissi það nákvæmlega, var með plögg um það á borðinu, en upplýsti ekki um það. Sömuleiðis sagði hann rangt frá í þinginu þegar hann sagðist aðeins hafa upplýsingarnar úr fjölmiðlum eins og þingmaðurinn, sem hér stendur, sem var að spyrja um málið. Það var líka rangt. Hafi ég verið með rangan skilning á störfum þingsins í morgunþætti Bylgjunnar, þá sagði ég bara frá því að það væri þannig að menn létu hæstv. forseta þingsins hafa upplýsingar um hvað maður ætlar að spyrja að morgni dags þegar óundirbúnar fyrirspurnir eru lagðar fram.