Ummæli þingmanns um óundirbúnar fyrirspurnir

Þriðjudaginn 02. júní 1998, kl. 10:39:27 (7169)

1998-06-02 10:39:27# 122. lþ. 139.92 fundur 428#B ummæli þingmanns um óundirbúnar fyrirspurnir# (aths. um störf þingsins), SvG
[prenta uppsett í dálka] 139. fundur, 122. lþ.

[10:39]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég verð að segja það alveg eins og er að mér finnst það kannski sitja einna síst á hæstv. viðskrh. að skamma fólk fyrir að segja ósatt. Það er eiginlega eins og að kasta grjóti úr glerhúsi. Þó að það sé út af fyrir sig alveg rétt sem hann og hæstv. forseti sögðu hér um þessar óundirbúnu fyrirspurnir, þá er ekki hægt að drepa hinu alvarlega máli á dreif með því. Veruleikinn er sá að 3. júní 1996 sagði ráðherrann ekki satt úr þessum stól. Það liggur fyrir. Öll þjóðin veit það og það sjá allir.

Herra forseti. Þegar hæstv. ráðherra svaraði fyrirspurninni 3. júní 1996 hafði hann í sex vikur haft á borði sínu bréf frá formanni bankaráðs Landsbankans og jafnframt skýrslu frá Ríkisendurskoðun þar sem látið var að því liggja að lög hefðu verið brotin við meðferð þessara mála hjá fyrirtækinu Lind. Hæstv. ráðherra hafði haft á borðinu hjá sér og allir landsmenn, vikum saman, ítarlegar greinar í viðskiptablaði Morgunblaðsins eftir Kristin Briem þar sem flett var ofan af þessum málum lið fyrir lið. Allir sem um það vildu vita vissu hvernig staða þessara mála var.

Það að hæstv. viðskrh. skuli síðan koma hingað upp og setja ofan í þingmenn fyrir að segja ósatt, þá eru það frekar einhverjir aðrir sem eiga að skamma þingmenn tel ég, herra forseti. Hæstv. viðskrh. fer það illa.

Nú bætist svo við, herra forseti, að nýlega hefur verið upplýst í þessu máli að hæstv. forsrh. hafi skrifað Landsbankanum sérstakt bréf um þetta mál 19. febrúar, löngu áður en málið var rætt hér þannig að öll ríkisstjórnin var með það á hreinu hvað þarna var að gerast. Ráðherrann þóttist ekkert vita og af hverju var það? Af hverju reyndi ráðherra að plata þingið með því að fara í kringum hlutina eins og köttur í kringum heitan graut 3. júní 1996? Af hverju gerði hann það?

Það er auðvitað grafalvarlegt mál, herra forseti. Það er það sem forsetinn á að bregðast við, ef ráðherra segir þinginu ósatt.

(Forseti (GÁ): Forseti vill taka fram að hér eru rædd störf þingsins.)