Ummæli þingmanns um óundirbúnar fyrirspurnir

Þriðjudaginn 02. júní 1998, kl. 10:43:59 (7171)

1998-06-02 10:43:59# 122. lþ. 139.92 fundur 428#B ummæli þingmanns um óundirbúnar fyrirspurnir# (aths. um störf þingsins), SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 139. fundur, 122. lþ.

[10:43]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Það er vel við hæfi að menn ræði um það hverjir segi ósatt og hverjir satt þegar rætt er um störf þingsins. En það er líka ástæða til þess að ræða um það hvernig upplýsingum hefur verið leynt. Hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir spurði ekki aðeins um upphæðir í sinni fyrirspurn. Hún spurði líka hvort ráðherranum þætti ekki ástæða til þess að láta fara fram rannsókn. Því var ekki svarað. Þeim upplýsingum, sem þá lágu fyrir, bæði um þær rannsóknir sem fram höfðu farið og þær aðrar sem til stóð að fara í, var leynt fyrir hv. Alþingi. Það var líka alvarlegt, herra forseti, ámælisvert og spurning hvernig með það eigi að fara og hver eigi að úrskurða um slíkt.