Ummæli þingmanns um óundirbúnar fyrirspurnir

Þriðjudaginn 02. júní 1998, kl. 10:44:59 (7172)

1998-06-02 10:44:59# 122. lþ. 139.92 fundur 428#B ummæli þingmanns um óundirbúnar fyrirspurnir# (aths. um störf þingsins), VS
[prenta uppsett í dálka] 139. fundur, 122. lþ.

[10:44]

Valgerður Sverrisdóttir:

Hæstv. forseti. Hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir hefur orðið uppvís að ósannsögli í fjölmiðlum varðandi algert grundvallaratriði þessa máls. Það er grundvallaratriði vegna þess að hún hefur rekið málið þannig að hæstv. ráðherra hafi átt að geta svarað henni nákvæmlega. Nú kemur það í ljós, og er staðfest af hæstv. forseta, að hæstv. ráðherra í þessu tilfelli, eins og í öðrum tilfellum um ráðherra, veit ekkert um hvað muni verða spurt. Þeir vita það ekki fyrr en viðkomandi hv. þm. fer í ræðustól og ber fram spurningu sína. Þess vegna er ekki hægt að gera kröfu um að þeir svari nákvæmlega. Þannig hefur það alltaf verið vitað, síðan við tókum þetta form upp á hv. Alþingi, að ekki væri hægt að ætlast til þess að hæstv. ráðherrar svöruðu nákvæmlega.

Hv. þm. hefði því verið í lófa lagið, ef hún var ekki ánægð með svör hæstv. ráðherra í þessu tilfelli, ef henni fundust þau ekki fullnægjandi, að leggja fram skriflega fyrirspurn á eftir. Það gerði hún hins vegar ekki fyrr en löngu síðar.

Þess vegna er þetta algert grundvallaratriði sem hér hefur komið fram og verið staðfest af forseta. Allt málið hefur verið rekið á eintómum misskilningi. Hv. þm. og jafnvel fleiri þingmenn hafa haldið því fram að ástæða sé til þess að koma fram með vantraust á ráðherra fyrir að svara ekki fullkomlega óundirbúinni fyrirspurn sem er ósanngjarnt og ekki í samræmi við þingsköp.