Ummæli þingmanns um óundirbúnar fyrirspurnir

Þriðjudaginn 02. júní 1998, kl. 10:47:24 (7174)

1998-06-02 10:47:24# 122. lþ. 139.92 fundur 428#B ummæli þingmanns um óundirbúnar fyrirspurnir# (aths. um störf þingsins), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 139. fundur, 122. lþ.

[10:47]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Það er ótrúlegt hvernig stjórnarliðar reyna að drepa málinu á dreif með því að segja að ég hafi sagt ósatt í útvarpsþætti í morgun. Það hefur komið fram hjá einum af þingflokksformönnum í þinginu að upplýst hafi verið af forseta að ástæðan fyrir því að þingmenn eru látnir upplýsa um efni óundirbúinna fyrirspurna að morgni dags sé sú að ráðherrar verði þá ekki eins óundirbúnir og viti um hvaða málefni þingmenn ætla að spyrja. Ég var sannfærð um það að svo væri. Ég vissi ekki annað en að ég væri að upplýsa forseta um hvað ég ætlaði að spyrja um til þess að ráðherrann væri viðbúinn. Það getur vel verið að svo sé ekki. Þá eru þetta rangar upplýsingar.

(Forseti (GÁ): Það er ekkert ,,getur vel verið``, það er skýrt að svo er ekki.)

Já, það komu upplýsingar um það hjá þingflokksformanni í þinginu að rætt hafi verið um það þegar þessu var komið á að þetta væri til þess að ráðherrar gætu verið undirbúnir.

Aftur á móti virðist mér að verið sé að hylma yfir alvarlega hluti þegar ráðherra upplýsir ekki um það aðspurður fyrir tveimur árum hvort ekki eigi að fara fram rannsókn á málinu, þegar búin er að fara fram rannsókn og hann er með rannsóknarskýrsluna á borðinu hjá sér. Yfir hvað er verið að hylma og hvers vegna var ekki sagt frá því í þinginu? Það var það sem ég spurði hæstv. ráðherra um.

Ef ég var ekki ánægð með svörin fyrir tveimur árum hefði ég getað spurt skriflega. Ég fékk þau svör frá ráðherra að hann vissi ekkert um málið nema það sem hefði komið fram í fjölmiðlum eins og ég. Hann minntist ekkert á rannsókn sem ég spurði hann um. Átti ég að fara að spyrja skriflega út í hluti sem ráðherra upplýsir mig um í þinginu að hann viti ekki nokkurn skapaðan hlut um? (Gripið fram í: Óundirbúið.) Óundirbúið. Herra forseti. (Forseti hringir.) Ef hæstv. ráðherra hefði sagt mér að hann væri með einhverjar upplýsingar, en myndi ekki hvort um væri að ræða nákvæmar tölur eða ekki, þá hefði ég vissulega komið með skriflega fyrirspurn. En ég minni þingið á að þetta var á síðustu dögum þingsins. (Forseti hringir.) Þetta var 3. júní 1996.

(Forseti (GÁ): Forseti vill spyrja hv. þingmenn hvort þeir hafi heyrt úrskurð hans í morgun.)