Svör viðskiptaráðherra um málefni Landsbankans og Lindar hf.

Þriðjudaginn 02. júní 1998, kl. 11:05:03 (7183)

1998-06-02 11:05:03# 122. lþ. 139.93 fundur 429#B svör viðskiptaráðherra um málefni Landsbankans og Lindar hf.# (um fundarstjórn), SvG
[prenta uppsett í dálka] 139. fundur, 122. lþ.

[11:05]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég vil sérstaklega mótmæla fundarstjórn forseta. Þetta var enginn úrskurður sem hér var felldur. Úrskurður er niðurstaða forseta í ágreiningi um túlkun þingskapa, um einstök atriði í framkvæmd og túlkun þingskapa. Það sem forseti var með hér áðan var enginn úrskurður. Forseti er búinn að tönnlast á þessu 10--20 sinnum á stólnum. Það er óvenjulegt að forseti blandi sér í umræðurnar eins og núverandi forseti hefur gert aftur og aftur. Auðvitað verður að viðurkenna að hann hefur með tekið myndarlegan þátt í þessu framsóknarleikriti sem hófst í morgun með athugasemdum hæstv. iðnrh.- og viðskh., sem hæstv. utanrrh. hefur tekið þátt í og formaður þingflokks Framsfl. En að hér hafi verið um að ræða úrskurð er bara fjarstæða. Ég mótmæli því. Þetta var engin úrskurður. Þetta var tilraun til þess að lýsa vinnuferli í þessari stofnun og um það get ég margt sagt.

Veruleikinn í þessu stóra máli er fyrst og fremst sá, herra forseti, að menn telja að hæstv. viðskrh. hafi 3. júní 1996 vitað betur en hann gaf í skyn, mikið betur en hann gaf í skyn. Hann hafði bréf frá formanni bankaráðs Landsbankans. Hann hafði skýrslu Ríkisendurskoðunar og hlaut að hafa lesið blöðin. Allir vita að hæstv. viðskrh. þekkir sérstaklega vel til þeirra manna sem hér koma við sögu. Þess vegna telja menn að verulegar líkur benda til þess að hæstv. ráðherra hafi sagt ósatt og að það fari honum a.m.k. illa að setja ofan í við aðra þingmenn. Ég vil gagnrýna það, herra forseti, að forsetinn taki úr stólnum þátt í pólitísku leikriti eins og Framsfl. hefur verið að reyna að skrifa af litlum mætti í morgun. Það er heldur illa gert leikrit í öllum meginatriðum, herra forseti.