Schengen-samstarfið

Þriðjudaginn 02. júní 1998, kl. 11:13:33 (7187)

1998-06-02 11:13:33# 122. lþ. 139.94 fundur 430#B Schengensamstarfið# (umræður utan dagskrár), Flm. HG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 139. fundur, 122. lþ.

[11:13]

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Eiga Íslendingar að afsala sér rétti til vegabréfaskoðunar gagnvart fólki sem kemur frá ríkjum Evrópusambandsins en herða um leið vegabréfa- og landamæra\-eftirlit gagnvart öllum öðrum jarðarbúum? Hvers vegna eigum við að kosta miklu til, fjárhagslega og pólitískt, að gerast vörsluaðilar ytri landamæra Evrópusambandsins? Hvað er mikið í sölurnar leggjandi til að losna við að sýna vegabréf einu sinni þá farið er héðan til Vestur-Evrópu? Hvaða hagsmuni er verið er að tryggja með Schengen-aðild Íslands og hver er fórnarkostnaðurinn? Er okkur vandara um en t.d. Bretum sem kjósa að standa utan Schengen þótt þeir séu aðilar að Evrópusambandinu og leggi oft leið sína yfir Ermarsund? Hví skyldi eyríki í miðju Atlantshafi láta hengja sig sem kerru aftan í Evrópusambandið og ráða engu um hvert stefnt er?

Þessum og fleiri spurningum er varða þetta afar sérstæða Schengen-mál hefur í raun aldrei verið svarað hér á Alþingi með öðru en ,,af því bara`` og vísað í Norræna vegabréfasambandið, sem farið er forgörðum hvort sem er í sínu gamla og góða formi. Danmörk, Svíþjóð og Finnland hafa þegar staðfest Amsterdam-sáttmálann eða eru í þann veginn að ganga frá staðfestingu hans þessa dagana. Schengen-samningurinn, með öllu sínu regluverki og fyrirmælum upp á ekki minna en 1.600 blaðsíður, er með öllu ósambærilegur við Norræna vegabréfasamstarfið.

Með gildistöku Amsterdam-sáttmálans verða meginreglur Schengen-samstarfsins hluti af réttarkerfi Evrópusambandsins. Slíkt fyrirkomulag stenst, að því er Ísland áhærir, ekki ákvæði íslensku stjórnarskrárinnar, ekki einu sinni að mati þeirra sem vilja túlka ákvæði hennar rúmt eins og gerðist með EES-samninginn. Þar með er botninn dottinn úr samstarfssamningi Íslands og Noregs við Schengen-ríkin eins og gengið var frá honum við undirritun 19. desember 1996.

Staða málsins eins og hún blasir við Alþingi og þeim sem hér talar er þessi: Samstarfssamningur Íslands við Schengen frá 1996 var ekki lagður fram í þinginu fyrr en 16. apríl sl. í kjölfar skriflegrar fyrirspurnar minnar, 588. máls yfirstandandi þings, og þá aðeins til kynningar. Ísland hefur þannig aldrei staðfest þennan samning en stjórnvöld hafa starfað líkt og þau væru aðili að honum, nú á annað ár eins og ekkert hafi í skorist. Schengen-samkomulagið og samningurinn í 142 greinum er um 100 blaðsíður, þ.e. samningurinn sjálfur. Það var fyrst fyrir sex vikum að hann var gerður aðgengilegur alþingismönnum í íslenskri þýðingu. Þingið hefur aldrei rætt málið með samninginn fyrirliggjandi í heild, hvað þá með hliðsjón af þeim fjölmörgu gerðum sem honum fylgja og við yrðum skuldbundin að.

Þessi geysiviðamiklu Schengen-málsskjöl, í tveimur þykkum möppum, voru send utanrmn. og allshn. þingsins sem trúnaðarmál um mánaðamótin janúar/febrúar í ár. Fróðlegt væri að vita hversu mikinn tíma nefndirnar hafa tekið sér til þess að ræða efni þeirra og fara yfir það. Þarna er m.a. um að ræða sameiginleg fyrirmæli til sendiráða og ræðisskrifstofa, skrá yfir lönd sem falla undir kvöð um vegabréfsáritun, sameiginlega handbókin svokallaða, m.a. með ákvæðum er tengjast Schengen-upplýsingakerfinu SÍS, og SIRENE-handbókin svonefnda.

Formlegar samningaviðræður hafa ekki hafist, svo mér sé kunnugt, milli Evrópusambandsins og Íslands, og Noregs eftir atvikum, um áframhaldandi þátttöku í Schengen-samstarfinu eftir tilkomu Amsterdam-samningsins. Veruleg andstaða virðist vera til staðar af hálfu sumra ESB-ríkja við þær lausnir sem óformlega hafa verið til umræðu og m.a. eiga að losa Ísland undan því að lúta beint lögsögu Evrópudómstólsins svokallaða.

Hvað sem samningum líður mun Ísland ekki frekar en Noregur eiga hlutdeild í ákvörðunum um framkvæmd eða þróun Schengen-samstarfsins og verður að lúta niðurstöðu Evrópusambandsins eða hætta þátttöku í Schengen að öðrum kosti. Áætlanir um heildarkostnað Íslands vegna þátttöku í Schengen hafa ekki legið fyrir nema í brotum, sbr. svar ráðherra við fyrirspurn minni 16. apríl sl., á þskj. 1175. Enn er óljóst með kostnað vegna hlutdeildar í stækkun flugstöðvar í Keflavík, kostnað vegna stofnbúnaðar Schengen-upplýsingakerfisins, SIRENE-skrifstofu hérlendis og margra annarra þátta.

Framkvæmdir við fyrsta áfanga Flugstöðvarinnar í Keflavík eiga að hefjast í sumar og ljúka í ársbyrjun 2000. Áætlaður kostnaður er sagðir um 1.100 millj. kr. Forsendur Schengen-þátttöku Íslands liggja enn ekki fyrir, en miklu hefur verð kostað til vegna hönnunarinnar einnar saman. Mörg atriði er varða afleiðingar af hugsanlegri Schengen-aðild Íslands eru óljós og óskýrð af hálfu stjórnvalda. Þar á meðal er hættan á auknum ólöglegum innflutningi fíkniefna til landsins.

Annað atriði sem ekki hefur verið upplýst er hvernig framkvæma eigi 3. gr. Schengen-samningsins að því er varðar sérstaka flokka skipasiglinga eins og skemmtisiglingar og strandveiðar en framkvæmdanefnd Schengen setur reglur þar að lútandi.

Herra forseti. Hæstv. utanrrh. verður ekki sakaður um áhugaleysi þegar kemur að því að binda Ísland við Schengen og virðist ganga verulega fram úr Norðmönnum í því efni. Ég hef leyft mér af tilefni þessarar umræðu að bera fram við hæstv. utanrrh. spurningar varðandi málið í 12 tölusettum liðum og vænti þess að hann geti veitt svör við þeim hér þótt rammi þessarar umræðu sé vissulega allt of þröngur.