Schengen-samstarfið

Þriðjudaginn 02. júní 1998, kl. 11:31:35 (7192)

1998-06-02 11:31:35# 122. lþ. 139.94 fundur 430#B Schengensamstarfið# (umræður utan dagskrár), VS
[prenta uppsett í dálka] 139. fundur, 122. lþ.

[11:31]

Valgerður Sverrisdóttir:

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu. Ég held að mikilvægt sé að hún fari fram en auðvitað er hún í mjög knöppu formi þegar svona mikilvægt mál er annars vegar eins og ég vil meina að Schengen-samstarfið sé.

Við Íslendingar erum sjálfstæð þjóð á meðal þjóða og við þurfum að taka afstöðu til mála eins og þessa máls. Ég tel að við höfum þegar gert það. Ég tel að það hafi verið tekin sú ákvörðun að við tökum þátt í þessu samstarfi þó svo ekki hafi formlega verið hægt, því miður, að ganga frá því af hálfu Alþingis.

Við vitum að norræna vegabréfasambandið er staðreynd og það hefur heppnast ákaflega vel og það hefur verið okkur Íslendingum mjög mikilvægt. Þetta eru staðreyndir sem liggja fyrir. Það getur verið auðvelt að koma hér upp eins hv. þm. Ragnar Arnalds gerði og segja bara sem svo að það eigi að láta þetta lönd og leið. Það er ósköp einfalt að segja það. En hverjar yrðu afleiðingarnar?

Í mínum huga er enginn vafi á því að afleiðingarnar yrðu mikil einangrun fyrir Ísland og allra alvarlegast að mínu mati er að það mundi þýða mikla einangrun frá hinum Norðurlöndunum sem liggur alveg fyrir í dag að munu verða með og munu taka þátt í þessu samstarfi. Þess vegna undrast ég að hv. þm. skuli geta komið hér upp og sagt bara si sona að við skulum láta þetta lönd og leið þegar svo stórt hagsmunamál sem varðar hagsmuni okkar Íslendinga á í hlut.