Staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn

Þriðjudaginn 02. júní 1998, kl. 11:45:51 (7198)

1998-06-02 11:45:51# 122. lþ. 139.1 fundur 568. mál: #A staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn# þál. 28/122, Frsm. meiri hluta TIO
[prenta uppsett í dálka] 139. fundur, 122. lþ.

[11:45]

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. á þskj. 1268 um till. til þál. um staðfestingu þriggja viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn um aðild Póllands, Tékklands og Ungverjalands. Nál. þetta sem er stutt meiri hluta utanrmn. er undirritað af hv. þm. Geir H. Haarde, Tómasi Inga Olrich, Össuri Skarphéðinssyni, Siv Friðleifsdóttur, Árna R. Árnasyni, Gunnlaugi Sigmundssyni, Kristínu Ástgeirsdóttur og Láru M. Ragnarsdóttur.

Herra forseti. Á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins sem haldinn var í júlí 1997 voru teknar mikilvægar og stefnumarkandi ákvarðanir um aðlögun bandalagsins að þeim nýju aðstæðum í öryggis- og varnarmálum Evrópu sem upp höfðu komið eftir hrun Sovétríkjanna, svo og um þróun bandalagsins í upphafi nýrrar aldar. Þessar ákvarðanir lúta að skipulagningu bandalagsins, innra skipulagi þess en auk þess var tekin ákvörðun um að bjóða þremur ríkjum, lýðveldunum Póllandi, Tékklandi og Ungverjalandi aðild að Norður-Atlantshafsbandalaginu.

Á ráðherrafundi bandalagsins sem haldinn var í Brussel 16. desember 1997 voru undirritaðir viðbótarsamningar um aðild ríkjanna þriggja. Stefnt er að því að fullgildingu samninganna verði lokið fyrir apríl 1999 þannig að aðild ríkjanna geti formlega tekið gildi á 50 ára afmæli Atlantshafsbandalagsins en þess verður minnst á því ári.

Stækkun Atlantshafsbandalagsins styrkir varnarsamstarf lýðfrjálsra þjóða í Evrópu og verður til þess að fjölga þeim stoðum sem staðið hafa undir varnar- og öryggismálum álfunnar frá því að heimsstyrjöldinni síðari lauk. Með þessari útvíkkun bandalagsins ganga til liðs við NATO þrjár Evrópuþjóðir sem hafa sýnt það við aðdraganda málsins að þær eru reiðubúnar til að axla þá ábyrgð sem í þátttökunni felst. Það liggur fyrir að innganga þessara þjóða mun ekki draga úr trúverðugleika varnarbandalagsins. Þvert á móti mun hún styrkja bandalagið og auka vægi þess í evrópskum málefnum í framtíðinni.

Herra forseti. Það er einnig ljóst af viðræðum við þessar nýju bandalagsþjóðir að þeim hrýs ekki hugur við þeim útgjöldum sem aðild þeirra hefur í för með sér en þessi útgjöld eru nokkur. Þessar þjóðir líta svo á að þátttaka þeirra í Atlantshafsbandalaginu muni þegar til lengri tíma er litið draga stórlega úr kostnaði þeirra við varnarmál og þannig muni innganga þeirra í Atlantshafsbandalagið til lengri tíma litið verða til þess að styrkja efnahagslíf og bæta lífskjör í þessum nýju bandalagsríkjum sem öll gera sér grein fyrir því að þau þurfa á einhvern hátt að kosta miklu fé til öryggis- og varnarmála sinna.

Við skulum ekki gleyma því að allar hafa þessar þrjár þjóðir, Pólverjar, Ungverjar og Tékkar orðið að þola það í aldanna rás að vera milli steins og sleggju í átökum stórvelda um völd og áhrif í álfunni. Þessar þjóðir hafa allar sára og dýrkeypta reynslu af því hvað það þýðir að geta ekki tryggt varnir sínar. Margendurtekin skipting Póllands er táknræn fyrir örlög varnarlausra þjóða sem búa á krossgötum þar sem umlykja straumar hugmynda og hagsmuna. Munchen-samningurinn stendur sem minnisvarði um örlög þjóða sem stórveldin nota sem skiptimynt til að kaupa sér stundarfrið.

Mörg nöfn hljóma kunnuglega í sögu stríðshrjáðrar Evrópu. Allt frá miðöldum til okkar daga hefur Mið-Evrópa verið á krossgötum valdabaráttu og átaka. Engan þarf því að undra að þessi þrjú ríki, Ungverjaland, Pólland og Tékkland sæki það mjög fast að finna varnar- og öryggismálum sínum farsælan farveg og traustari en verið hefur lengstum. En þó að stækkun Atlantshafsbandalagsins hafi mikið með hermál og varnarmál að gera, þá er þó umfram allt ljóst að útvíkkun NATO er stjórnmálalegur stórviðburður sem varpar skýru ljósi til beggja átta, annars vegar fram á veginn til þeirrar skipunar öryggismála sem mun einkenna 21. öldina en þessi stórviðburður varpar einnig ljósi aftur á bak til liðinna áratuga. Útvíkkun NATO er skýr og tvímælalaus vísbending um hvaða augum þær þjóðir sem í hálfa öld voru undir járnhæl kommúnismans líta þau samtök vestrænna þjóða sem við stuðningsmenn þessara samtaka kölluðum alla tíð varnarsamtök okkar en andstæðingar okkar á vinstri vængnum sáu sóma sinn í því að níða niður eftir því sem þeim var frekast fært og völdu til þess öll þau orðskrípi sem þeim var lagið.

Þegar þessar nýfrjálsu þjóðir hafa loksins heimild til þess að hafa skoðun á málinu og líta á Atlantshafsbandalagið sem varnarbandalag og tryggingu fyrir friði og öryggi og skipa sér í lið með lýðræðisþjóðunum velja þær inngöngu í Atlantshafsbandalagið. Það er því skylda okkar að taka þessum þjóðum opnum örmum að því tilskildu að innganga þeirra í bandalagið verði því og þar með öllum bandalagsþjóðunum til styrktar og öryggismálum Evrópu til góðs. Um það hefur verið deilt hvort stækkun Atlantshafsbandalagsins geti leitt til þess að einangra þær þjóðir sem utan þess standa og þá einkum Rússa. Þess ber þá að geta að engin þjóð ræður meiru um einangrun Rússa en Rússar sjálfir. Það hefur ekki skort vilja hjá Atlantshafsbandalaginu til samstarfs við Rússa um öryggismál og hefur það samstarf þegar vakið verðskuldaða athygli og við það samstarf eru bundnar miklar vonir.

Þá ber ekki síður að skoða að öryggismál Evrópu hafa hvílt og hvíla á mörgum stoðum, ekki síst á þeim stoðum sem efnahagssamvinna Evrópuríkjanna myndar og þá fyrst Efnahagsbandalag Evrópu og síðar Evrópusambandið sem tók við af Efnahagsbandalaginu.

Ég geri fastlega ráð fyrir því að þróun Evrópusambandsins hafi ekki síður og raunar enn fremur áhrif á það hvort Rússar einangrast en útvíkkun NATO. Þetta má marka af því að það bil sem nú er að skapast milli Rússlands og einnig Úkraínu og Hvíta-Rússlands er bil sem er fyrst og fremst efnahagslegs eðlis. Þetta bil verður ekki brúað nema með aukinni efnahagssamvinnu, auknum viðskiptum og bættum efnahag þessara þriggja ríkja. Það fer því mjög eftir innri þróun Evrópusambandsins hvort þessi efnahagssamvinna og auknu viðskipti verða meiri í framtíðinni eða hvort þau þróast minna en æskilegt er. Þess vegna hlýtur það að ráðast nokkuð af því hvaða áherslu Evrópusambandið leggur annars vegar á dýpkun síns samstarfs ellegar á útvíkkun Evrópusambandsins, hvort þær stoðir aðrar sem standa undir öryggissamvinnu Evrópu leiða til þess að Rússland einangrast í framtíðinni. Ég held að ekki sé ákjósanlegt að líta svo á að stækkun NATO sé gerð til höfuðs Rússum. Atlantshafsbandalagið hefur sýnt það og sannað með aðlögun sinni að nýjum aðstæðum og þá kannski ekki síst með friðarsamstarfinu og stofnun Evró-Atlantshafsfsamvinnuráðsins að það er til þess reiðubúið að efla tengslin við þær þjóðir sem standa utan bandalagsins og ekki má þá heldur gleyma því þegar þessi ríki eru nefnd, Úkraína og Rússland, að Atlantshafsbandalagið hefur undirritað samstarfssamning við Úkraínu og auk þess var undirritaður samstarfssamningur um samstarfsráð Atlantshafsbandalagsins og Rússlands árið 1997. Það eru því öll verkfæri til til að efla samstarfið við þessar þjóðir og ekki vantar viljann til þess af hálfu Atlantshafsbandalagsins.

Herra forseti. Um leið og ég get þess að í nál. er fjallað ítarlega um með hvaða hætti utanrmn. hefur aflað sér upplýsinga um þetta mál, þá vil ég hvetja til þess að hér verði málefnalegar umræður um þetta mikilvæga skref sem nú er verið að stíga og við náum sem mestri samstöðu um það á þinginu að bjóða þessar þrjár þjóðir velkomnar í hóp þeirra ríkja sem mynda Atlantshafsbandalagið.