Staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn

Þriðjudaginn 02. júní 1998, kl. 12:01:11 (7200)

1998-06-02 12:01:11# 122. lþ. 139.1 fundur 568. mál: #A staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn# þál. 28/122, Frsm. meiri hluta TIO
[prenta uppsett í dálka] 139. fundur, 122. lþ.

[12:01]

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Ég vil vekja athygli á því að hv. þm. Margrét Frímannsdóttir kýs að sitja hjá við afgreiðslu málsins og hefur lagt fram nál. sem er athyglisvert fyrir margra hluta sakir. Það fyrsta sem mig langar til að nefna í þessu nál. er að þingflokkur Alþb. og óháðra hefur lagt áherslu á að skynsamlegra væri að Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, ÖSE, yrði efld sem sameiginlegt friðar- og öryggisbandalag Evrópu þar sem allar þjóðir Evrópu ættu þátt í mótun og framkvæmd nýrrar stefnu í öryggis- og friðarmálum.

Í raun er þetta á svipuðum nótum og rússnesk stjórnvöld hafa flutt mál sitt. Þau hafa verið því fylgjandi um alllangt skeið að ÖSE yrðu þau samtök þar sem fram færu umræður um öryggismál og varnarmál innan Evrópu. Þegar allt kemur til alls er ekkert því til fyrirstöðu að ÖSE verði eflt sem samstarfsvettvangur Evrópuþjóðanna. Það er mjög víður vettvangur. Þar koma mjög margar þjóðir að, miklu fleiri þjóðir en eiga aðild að NATO. ÖSE hefur reynst vera gagnlegur vettvangur fyrir samstarf Evrópuþjóðanna um öryggismál.

Það að efla ÖSE hefur mjög lítið með það að gera, hvort NATO verður eflt eða ekki. Það að efla NATO brýtur ekkert í bága við það að efla ÖSE. Þessar stofnanir eru allt annars eðlis. ÖSE hefur ekki með nein hermál að gera, getur ekki skorist í leikinn eins og NATO hefur gert, t.d. í Júgóslavíu, og hefur engin tök á því að taka á sig þær skuldbindingar sem NATO hefur tekið á sig. ÖSE hefur því ekki möguleika á því að byggja upp öryggis- og varnarmál eins og NATO hefur gert. Þarna er ekki andstaða á milli tveggja stofnana. Það verður bara að undirstrika það að þessar stofnanir eru ólíkar og ÖSE getur ekki komið í staðinn fyrir NATO.

Annað vil ég einnig nefna í sambandi við þetta nál. Það er ákveðin innri mótsögn í því. Hér er að vísu viðurkennt að virða beri sjálfsákvörðunarrétt þjóða, sem ég hélt að væri augljóst mál, en síðan er gagnrýnt val forsvarsmanna Atlantshafsbandalagsins á þeim þremur ríkjum sem lagt er til að fái inngöngu í NATO og það val talið umdeilanlegt. Bent er á að önnur ríki hefðu fremur og ekki síður þurft á nánari tengslum við Vesturlönd að halda, m.a. Eystrasaltsríkin. Með öðrum orðum er hér sagt að lýðræðisríki þurfi á þeim tengslum við Vesturlönd að halda sem fólgin eru í aðild að NATO og þar eru Eystrasaltsríkin nefnd sérstaklega, en í hinum fræðunum er sagt að stækkun Atlantshafsbandalagsins geti haft í för með sér vaxandi ófriðarhættu og skapað spennu. Menn verða að gera það upp við sig hvort þeir telja að lýðræðisríkjum Evrópu sé í raun og veru tryggt skjól með aðildinni að NATO eða hvort aðild að NATO leiði af sér vaxandi ófriðarhættu og spennu. Svona misvísandi málflutningur er ekki til þess að auðvelda skilning á afstöðu þingmannsins.

Þetta vildi ég að kæmi hér fram vegna þess að mér finnst að þetta kalla á skýringar.