Staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn

Þriðjudaginn 02. júní 1998, kl. 12:20:00 (7203)

1998-06-02 12:20:00# 122. lþ. 139.1 fundur 568. mál: #A staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn# þál. 28/122, KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 139. fundur, 122. lþ.

[12:20]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir þetta síðasta sem fram kom hjá hv. þm. Tómasi Inga Olrich að Eystrasaltsríkin eru sjálfstæð ríki og hafa að sjálfsögðu sinn rétt. Rússar hafa ekkert neitunarvald gagnvart þeim. Það er hins vegar skynsamlegt pólitískt séð að fara hægt í sakirnar og stíga skrefin hægt og rólega. Því að eins og við höfum oft komið inn á eru þetta miklar breytingar og Rússar eiga afar erfitt bæði pólitískt, og mér liggur við að segja andlega og efnahagslega því að þeir eiga erfitt með að sætta sig við þá stöðu að vera í raun og veru orðnir ríki sem á í mjög miklum efnahagslegum erfiðleikum. Þetta eiga þeir erfitt með að sætta sig við, enda spretta upp ýmiss konar öfgahópar hjá þeim eins og öðrum.

Hvað varðar kjarnorkuvopnin, þá vil ég aðeins ítreka þá skoðun mína að það má aldrei beita kjarnorkuvopnum, aldrei. Það hefur einu sinni verið gert í sögunni með hörmulegum afleiðingum. Það vita allir hvílíkar gífurlegar hættur og hvílík gífurleg eyðing og eyðilegging, ekki til nokkurra ára heldur áratuga og jafnvel árhundruða og þúsunda getur fylgt beitingu kjarnorkuvopna. Sú stefna er því óásættanleg. Við höfum ekki tíma til að fara út í þá gömlu umræðu um fælingarmátt og fleira slíkt en að mínum dómi verða menn að fara aðrar leiðir, hvort sem við erum að ræða um Indland og Pakistan eða Rússa. Það má aldrei beita kjarnorkuvopnum.