Staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn

Þriðjudaginn 02. júní 1998, kl. 12:46:22 (7205)

1998-06-02 12:46:22# 122. lþ. 139.1 fundur 568. mál: #A staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn# þál. 28/122, Frsm. meiri hluta TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 139. fundur, 122. lþ.

[12:46]

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Tómas Ingi Olrich) (andsvar):

Herra forseti. Ýmislegt af því sem fram kom í ræðu hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar er athyglisvert og gæti kallað á frekari spurningar. Örfá atriði langar mig til að minnast á hér.

Hv. þm. sagði að það væri ófarsælt skref að færa yfirráðasvæði hernaðarbandalags til austurs. Við þetta er það að athuga að hér er þingmaðurinn að nota hugtök með þeim hætti að það minnir á liðna tíð. NATO hefur ekki yfirráðasvæði. Munurinn á NATO og Varsjárbandalaginu var á sínum tíma sá að Varsjárbandalagið hafði yfirráðasvæði þar sem þjóðirnar voru seldar undir ákvarðanir sem teknar voru í Moskvu. Þannig greip Varsjárbandalagið inn í innanríkismál hvað eftir annað meðal bandalagsríkja Varsjárbandalagsins.

NATO hefur ekki yfirráðasvæði. Það er sameiginlegt varnarsvæði með sameiginlegum skuldbindingum og það er allt annars eðlis.

Það er alveg rétt að á vettvangi rússneskra stjórnvalda hafa komið fram hótanir um viðbrögð en það er ekki nýtt af nálinni. Slíkum hótunum hefur oft verið beitt og það má segja að það sé mikil hefð fyrir slíkum hótunum af hálfu yfirvalda í Moskvu. Það hefur yfirleitt sýnt sig að það er ekki skynsamlegt að láta undan slíkum hótunum. Það er líka fullkomlega eðlilegt að menn spyrji sig og hv. þm. svari því: Hve langt ganga lögmætir öryggishagsmunir Rússa? Munu Rússar sætta sig við að þær þjóðir sem næst þeim byggja njóti þess réttar að reka sjálfstæða utanríkisstefnu? Eru það lögmætir öryggishagsmunir Rússa að neita þessum þjóðum um þann sjálfsagða rétt að reka sjálfstæða utanríkismálastefnu? Við skulum minnast þess hvernig samskipti Finna og Rússa fóru fram áratugum saman þegar talað var um svokallaða Finnlandiseríngu Rússa á utanríkismálastefnu Finnlands. Um annað get ég ekki sagt. Spádómsgáfa Ásgeirs Sverrissonar er eflaust ágæt og ýmislegt um það að segja. Framlag til umræðunnar er gott þó að ég deili ekki skoðunum hans.