Framlag til þróunarsamvinnu

Þriðjudaginn 02. júní 1998, kl. 14:19:14 (7214)

1998-06-02 14:19:14# 122. lþ. 139.6 fundur 7. mál: #A framlag til þróunarsamvinnu# þál., Frsm. KÁ
[prenta uppsett í dálka] 139. fundur, 122. lþ.

[14:19]

Frsm. utanrmn. (Kristín Ástgeirsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nál. utanrmn. um till. til þál. um aukið framlag til þróunarsamvinnu. Í nál. segir:

Málið er endurflutt frá síðasta þingi og þá barst umsögn frá Þróunarsamvinnustofnun.

Á undanförnum árum hefur talsverð umræða orðið um aukin framlög Íslendinga til þróunarsamvinnu. Þrátt fyrir að ekki hafi verið fylgt eftir sem skyldi þeim markmiðum sem sett voru í ályktun Alþingis frá árinu 1985 hefur þróunar\-aðstoð og samvinna aukist jafnt og þétt. Skemmst er að minnast þess að á þessu ári verður hafinn rekstur Sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna og 22. apríl sl. samþykkti Alþingi aðild Íslands að Fjölþjóðlegu fjárfestingarábyrgðastofnuninni. Á síðasta ári, 16. apríl, skilaði Jónas H. Haralz skýrslu um þróunarsamvinnu Íslands. Skýrslan var unnin á vegum utanríkisráðuneytisins í samráði við Þróunarsamvinnustofnun Íslands. Markmið hennar er að veita stjórnvöldum yfirsýn yfir stöðu, hlutverk og árangur íslenskrar þróunarsamvinnu í ljósi alþjóðlegrar reynslu og þar með auðvelda þeim að marka stefnu og haga framkvæmdum í þróunarmálum.

Stefnumörkun í þróunarmálum fer nú fram á vegum stjórnvalda og mun utanríkismálanefnd fjalla ítarlega um niðurstöður þeirrar vinnu þegar þær liggja fyrir. Í ljósi þess leggur nefndin til að tillögunni verði vísað til ríkisstjórnarinnar.

Undir þetta nál. rita allir nefndarmenn utanrmn.