Langtímaáætlun í vegagerð

Þriðjudaginn 02. júní 1998, kl. 15:08:28 (7230)

1998-06-02 15:08:28# 122. lþ. 140.4 fundur 379. mál: #A langtímaáætlun í vegagerð# þál. 20/122, ArnbS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 140. fundur, 122. lþ.

[15:08]

Arnbjörg Sveinsdóttir:

Hæstv. forseti. Nú er komin til atkvæðagreiðslu langtímaáætlun í vegagerð. Fagna ber breyttum vinnubrögðum við skiptingu vegafjár og var það orðin löngu tímabær breyting. Með langtímaáætlun eru sett metnaðarfull markmið sem ég tel vera af hinu góða.

Það er ljóst að þeir fjármunir sem ætlaðir eru til að ná þeim markmiðum á Austurlandi eru ekki nægilega miklir. Þetta er viðurkennt í nál. meiri hluta samgn. og þess er getið að 550 millj. kr. vanti. Það er álit meiri hluta samgn. að úr þessu verði bætt við endurskoðun langtímaáætlunar. Einnig hafa komið upp rökstuddar efasemdir um að þeir fjármunir sem ætlaðir eru til vegtengingar við Vopnafjörð muni duga. Úr því verður að bæta við endurskoðun langtímaáætlunar. Ég vísa til vilja meiri hluta samgn. og í trausti þess að ég geti haft áhrif á þá endurskoðun mun ég greiða atkvæði með þessari tillögu og segi því já.