Loftferðir

Þriðjudaginn 02. júní 1998, kl. 15:33:06 (7239)

1998-06-02 15:33:06# 122. lþ. 140.10 fundur 201. mál: #A loftferðir# (heildarlög) frv. 60/1998, EKG (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 140. fundur, 122. lþ.

[15:33]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Sú brtt. sem við greiðum atkvæði um er sett fram til þess að bregðast við ábendingum Íslenskrar málnefndar í bréfi til samgn. frá 12. maí sl. og lýtur að útgáfu reglna. Ég tel nauðsynlegt að hér komi fram að í fæstum tilvikum eigum við val um það hvort þýða beri þær reglur sem okkur er skylt að hrinda í framkvæmd. Landsréttur er á íslensku og það sem honum tilheyrir verður að birta á íslensku. Lagareglur ber að birta á íslensku með formbundnum hætti. Á sumum sviðum getur verið vafi á því hversu langt eigi að ganga í þýðingu og almennri birtingu á reglum. Flugöryggissamtök Evrópu hafa t.d. gefið fyrirmæli um að flugrekstrarhandbækur skuli vera á ensku í þeim tilgangi að gera eftirlit af hálfu þessara aðila mögulegt gagnvart flugrekendum sem fljúga milli aðildarríkja. Hér er ekki um að ræða réttarreglur sem ætlað er að binda ótiltekinn fjölda manna og þær varða fyrst og fremst nánari útfærslu á framkvæmd laga og reglna sem birt eru í Stjórnartíðindum.

Ég taldi nauðsynlegt að þetta kæmi fram í tengslum við þessa brtt. sem ég hef hér flutt og er til þess að skýra málið sem Íslensk málnefnd hefur vakið athygli á.