Málefni LÍN

Þriðjudaginn 02. júní 1998, kl. 16:11:04 (7253)

1998-06-02 16:11:04# 122. lþ. 140.93 fundur 433#B málefni LÍN# (umræður utan dagskrár), Flm. SvG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 140. fundur, 122. lþ.

[16:11]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Fyrir nokkru var tekin um það ákvörðun í stjórn Lánasjóðs ísl. námsmanna að svokallaður framfærslugrunnur námsmanna samkvæmt lögum um LÍN ætti að hækka um 2,5%. Meiri hluti stjórnarinnar tók þessa ákvörðun gegn atkvæðum minni hlutans, fulltrúa námsmanna, sem töldu að hér væri ekki um að ræða hækkun sem væri eðlileg miðað við þær breytingar sem höfðu gengið yfir í þjóðfélaginu að öðru leyti, hvorki í kjaramálum né verðlagsmálum.

Ef við skoðum þær breytingar sem orðið hafa á lágmarkskaupi Alþýðusambands Íslands frá því að lögin um LÍN voru sett árið 1983, þá hafa þau sjöfaldast að krónutölu. Þau hafa farið úr liðlega 10 þús. kr. í um það bil 70 þús. kr. Ef við skoðum meðalkaup Alþýðusambands Íslands samkvæmt niðurstöðu kjararannsóknarnefndar, þá hefur það kaup hækkað úr um það bil 20 þús. kr. á mánuði í um það bil 155 þús. kr. á mánuði eða 7,5-faldast eða svo. Ef við skoðum aftur á móti framfærslu Lánasjóðs ísl. námsmanna þá hefur hún á sama tíma breyst úr 12.653 kr. á mánuði í 56.900 kr. á mánuði eða um það bil 4,5-faldast.

Þetta var eins og ég sagði, herra forseti, miðað við árin 1983 og þá hækkun sem hefur orðið 1998. Ef við miðum við lágmarkslaun Alþýðusambands Íslands, þá vantar 27 þús. kr. á mánuði á framfærslugrunninn eins og hann er í dag. Ef við miðum við meðallaun Alþýðusambands Íslands, þá vantar 39 þús. kr. á mánuði ef þróunin hefði orðið sambærileg á framfærslugrunninum og á meðallaununum.

Ef við skoðum hins vegar mikið styttra tímabil sem margir kynnu að halda fram að væri eðlilegra, ef við skoðum t.d. árin 1994--1998, þá hefur grunnframfærsla á mánuði samkvæmt LÍN hækkað um 1,26%. Meðaltalslaun Alþýðusambands Íslands á sama tíma hafa hækkað um 25,2% og lágmarkslaun Alþýðusambands Íslands á sama tíma um 34,13%.

Frá því að lögin um Lánasjóð ísl. námsmanna voru sett er liðinn langur tími. Ég ætla að rifja það upp hér, herra forseti, að um það mál var rík sátt við námsmenn og Alþingi. Ég man ekki betur en lögin væru samþykkt samhljóða á sínum tíma. Þá var ákveðið að miða breytingar á námslánum í framtíðinni við framfærsluvísitölu og um það var enginn ágreiningur. Fulltrúi Sjálfstfl. í þeirri nefnd var t.d. Friðrik Sophusson, síðan hæstv. fjmrh.

Nokkrum árum eftir að þessi lög voru sett, í stjórnartíð Sverris Hermannssonar menntmrh. að ég hygg, var þessi viðmiðun afnumin og ákveðið að lánin breyttust ekki að krónutölu, þau yrðu áfram um nokkurra ára skeið í fastri krónutölu. Síðan var tekin um það ákvörðun að miða lánin við þróun ráðstöfunartekna. Svo var aftur tekinn upp framfærslugrunnur á árunum 1988--1991. Þá voru lánin lækkuð í tíð Ólafs G. Einarssonar um 16,7%.

Ég vek athygli á tvennu, herra forseti. Annars vegar er engin rök hægt að sjá fyrir því að hækka lánin eða lánsgrunninn aðeins um 2,5%. Það er úr takti við allar breytingar á öðrum þjóðfélagslegum stærðum í kjörum og verðlagi á sama tíma.

Í öðru lagi liggur þetta þannig, herra forseti, að námsmenn hafa orðið að una því að hafa aldrei getað treyst því stundinni lengur við hvað er miðað. Stundum er það framfærsluvísitala, stundum eru það ráðstöfunartekjur, stundum er það almennur kaupmáttur, stundum er það þróunin í þjóðfélaginu að öðru leyti, stundum eitthvað allt annað.

Í þriðja lagi vek ég athygli á því, herra forseti, að þegar sú ákvörðun sem nú var tekin, um hækkun grunnsins um 2,5%, fylgdi því enginn menntapólitískur rökstuðningur. Á hvaða menntastefnu er byggt þegar þessi ákvörðun er tekin? Ég spyr hæstv. menntmrh. þess vegna: Hver eru rökin fyrir þessari hækkun eins og hún var knúin fram af meiri hluta stjórnar LÍN í fullri andstöðu við fulltrúa námsmanna?