Heilbrigðismál

Þriðjudaginn 02. júní 1998, kl. 16:49:35 (7266)

1998-06-02 16:49:35# 122. lþ. 140.94 fundur 435#B heilbrigðismál# (umræður utan dagskrár), heilbrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 140. fundur, 122. lþ.

[16:49]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls míns þakka hv. þm. Sighvati Björgvinssyni fyrir að gefa mér tækifæri til að fara yfir stefnuna í heilbrigðismálum.

Hvernig höfum við nýtt okkur góðærið í þjóðfélaginu undanfarin tvö ár? Á sl. rúmum tveimur árum höfum við lagt 6 milljörðum meira til heilbrigðis- og tryggingamála að raungildi. Hvernig höfum við nýtt okkur þetta fjármagn? Við höfum nýtt okkur það þannig að við höfum ekki hækkað þjónustugjöld. Við höfum haldið þjónustugjöldum niðri og þjónustugjöld hafa ekki hækkað að raungildi nema síður væri. Þau hafa lækkað að raungildi. Við höfum hækkað umönnunarbætur til langsjúkra barna. Við höfum breytt fæðingarorlofi þannig að það er lengt hjá veikum mæðrum, vegna veikinda barna, vegna fjölbura og feðraorlofi hefur verið komið á. Við höfum hækkað almannatryggingabætur um 20%.

Tökum heilsugæsluna sem sérstaklega var til umfjöllunar og það tilvísunarkerfi sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson ætlaði að koma á en tókst ekki. Hann ætti að skýra það fyrir þingheimi af hverju hann kom því ekki á og færði það andvana nýjum ráðherra.

Við höfum byggt upp heilsugæsluna úti á landi þar sem hún var ekki uppbyggð áður. Við höfum opnað nýja heilsugæslu í Laugarási, í Hrísey og í Grenivík erum við að opna nýja heilsugæslu. Við opnuðum nýja heilsugæslustöð í Mosfellsbæ fyrir hálfum mánuði síðan. Við höfum opnað nýja heilsugæslustöð í Garðabæ. Við munum opna nýja heilsugæslustöð í Hafnarfirði á þessu ári, í Kópavogi á þessu ári og í Keflavík á næsta ári. Fossvogurinn er í fullri uppbyggingu.

Þetta er allt nauðsynlegt ef við ætlum að koma á valfrjálsu stýrikerfi sem var nefnt áðan. En valfrjálst stýrikerfi verður aldrei sett á laggirnar nema almenn sátt verði um það meðal lækna. Þegar ég kynnti það í fyrsta skipti, sagði ég sérstaklega frá því að það er einmitt það sem þarf í þessu kerfi, það þarf sátt.

Hv. þm. minntist á héraðsstjórnir og taldi þær líka andvana fæddar. Hvað er að gerast í þeim málum? Meginmarkmiðið var að fækka stjórnum og gera kerfið skilvirkara. Á Vestfjörðum höfum við sameinað sex stofnanir undir eina stjórn. Á Austfjörðum erum við að gera það sama. Í Reykjavík erum við búin að sameina heilsugæslustöðvarnar undir eina stjórn. Núna munum við t.d. sameina, svo að eitthvað sé nefnt, stjórnina á Hellu og Hvolsvelli og þannig höldum við áfram. Þannig erum við búin að ná markmiðum héraðsstjórna.

Svo spyr hv. þm. hvort gerðir hafi verið þjónustusamningar um einstaka þjónustuliði á sjúkrahúsum á Reykjavíkursvæðinu. Við höfum náð verulegum árangri þar. Öldrunarþjónustan er komin undir einn hatt. Það var ákveðið sumarið 1996 og nú er Landakot orðin ein stofnun fyrir bæði sjúkrahúsin á Reykjavíkursvæðinu. Endurhæfingin hefur líka verið samræmd. Verið er að samræma tölvudeildir þessara sjúkrahúsa og rannsóknarsviðið er sérstaklega tekið út fyrir sviga og verið að vinna að samræmingu þar að lútandi.

Þá spyr hv. þm.: Hvað með sameiningu sjúkrahúsanna? Ég hef aldrei farið dult með að ég tel það vera framtíðina og ég tel að þau skref sem við erum að stíga og höfum verið að stíga séu í sameiningarátt.

Komum þá að forgangsröðun í heilbrigðismálum. Hv. þm. gerði lítið úr þeirri skýrslu sem er nú í prentun um forgangsröðun í heilbrigðismálum. Það er þverpólitísk nefnd sem hefur komið hér að verki og þverfagleg. Þetta er mjög mikilvæg vinna sem allar þjóðir í kringum okkur hafa unnið áður. Ég setti þessa nefnd á laggirnar þegar ég tók við 1995 og nefndin er núna að ljúka störfum eða hefur lokið störfum. Meginmarkmiðið í þessu öllu saman er að greitt er fyrir þá þjónustu sem er læknisfræðilega vísindalega sannað að hefur gildi. Það er meginmarkmiðið í forgangsröðunarskýrslunni. Ég hef að sjálfsögðu ekki tíma til að lesa meginmarkmið hennar hér en þetta er plagg sem kemur okkur að góðu gagni.

Hv. þm. gerði að umræðuefni kjaradeilur hjúkrunarfræðinga. Okkur er að sjálfsögðu vandi á höndum sem þjóð þegar búið er að gera kjarasamninga til langs tíma. Í þessu tilviki er búið að gera kjarasamninga til ársins 2000 en kjaradeilur eru enn uppi og þetta er ekki í fyrsta skipti og ekki í annað skiptið og hv. þm. þekkir það vel úr fyrri störfum sínum. Það eru sérstakar úrskurðarnefndir og aðlögunarnefndir að vinna og það er von okkar að við náum lendingu þannig að við þurfum ekki á neyðaráætlun að halda en auðvitað verðum við að vinna það samtímis. Við höfum mánuð til stefnu að finna lausn á málinu en við verðum um leið og við leitum lausna líka að undirbúa ef allt fer á versta veg.

Hv. þm. spurði ekki um stefnuna í forvörnum en hann gerði lítið úr því í upphafi ferils míns að forvarnir skipti ekki eins miklu máli og ég hef alla tíð talið. Á síðustu tveim árum höfum við lagt 250 millj. til forvarnamála umfram það sem við höfum gert áður. Hér sjáum við loksins að við erum að ná árangri.

Bara varðandi tóbaksvarnirnar sjáum við samkvæmt nýjustu könnunum að tóbak er á undanhaldi á Íslandi í fyrsta skipti í mörg ár.

Mig langar að benda á margar nýjungar sem okkur hefur tekist að ná fram. Við hefjum framkvæmdir á nýjum barnaspítala nú í sumar. Við höfum breytt skurðstofunum á Landspítalanum og gjörgæsludeildinni þar, göngudeildum. Ný æðarannsóknarstofa hefur verið tekin í notkun, sem er bylting á Íslandi, og svo mætti lengi telja.

Hv. þm. Ég held að það sé ágætt að enda þessa ræðu með því að segja frá því að á síðasta þingi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar var um það getið að Ísland væri í 1.--3. sæti varðandi bestu heilbrigðisþjónustu í veröldinni.