Heilbrigðismál

Þriðjudaginn 02. júní 1998, kl. 17:15:45 (7271)

1998-06-02 17:15:45# 122. lþ. 140.94 fundur 435#B heilbrigðismál# (umræður utan dagskrár), KF
[prenta uppsett í dálka] 140. fundur, 122. lþ.

[17:15]

Katrín Fjeldsted:

Herra forseti. Hér er til umræðu víðfeðmt mál og kom málshefjandi víða við. Ég ætla mér ekki þá dul á fjórum mínútum að koma inn á nema örfá atriði af því sem hann ræddi um en einbeita mér fyrst og fremst að heilsugæslunni og málefnum hennar.

Það er svipað með heilsugæsluna og sjúkrahúsin að það minnir á söguna um Davíð og Golíat en Davíð var seigur eins og menn muna og heilsugæslan hefur alla burði og vill hafa alla burði til að standa sig álíka vel.

Heilsugæslan er mjög lítill hluti af kostnaði við heilbrigðisþjónustu. Samkvæmt tölum sem ég hef var hlutfall heilsugæslunnar um 1,5% af heildarútgjöldum fjárlaga árið 1991 meðan sjúkrastofnanir voru 13,9% og sjúkratryggingar 9,5. Þróunin frá 1991 hefur verið hæg. Ef við tökum 1991, þá sagði ég áðan 1,5%, fór niður í 1,4% 1996, síðan 1,5% og nú 1,6% árið 1998.

Rekstrarkostnaður heilsugæslunnar í heild er áætlaður upp á 2,3 milljarða kr. en það er svipað og kostnaður heimilanna í landinu er af tannlæknaþjónustu. Það sem almenningur heyrir af heilbrigðisþjónustunni er fyrst og fremst tvennt: Annað er kjaramál og hitt er árviss niðurskurðarumræða, sérstaklega við gerð fjárlaga eins og bent var á áðan. Samt er það svo að við eigum prýðilega menntaða lækna, erum með prýðilega menntaðar aðrar heilbrigðisstéttir og ágæta stjórnendur, a.m.k. ekki verri en í öðrum löndum.

Það er kominn tími til að sú neikvæða ímynd af heilbrigðisþjónustunni hverfi því að það er svo margt jákvætt sem gerist í þessum geira. Ég held að það sem trufli þetta núna séu skipulagsbreytingar og heilmiklar breytingar sem eru í gangi og eru í gerjun á vegum heilbrrn. og flestar prýðilegar en þetta kemur á sama tíma og heilbrigðisstéttir hafa verið í kjarabaráttu og menn misskilja svolítið í hverju vandamálið er fólgið.

Ef við lítum á kostnaðinn við heilbrigðisþjónustu, þá er vitað að langstærstur hluti er launakostnaður en tækjakaup hljóta að lúta nokkuð eðlilegum alþjóðlegum stöðlum og við þurfum ekki að uppgötva þyngdarlögmálið alltaf upp á nýtt. Það hlýtur að vera eðlilegt hvað þurfi að endurnýja af tækjabúnaði. Það sem hins vegar er viðbótarkostnaður og stór þáttur í kostnaði heilbrigðisþjónustu er hvernig lyf og rannsóknir eru nýttar. Þar byggir fyrst og fremst og eingöngu á ákvörðun lækna og þess vegna skiptir miklu máli að heilbrrn. vinni með þeim og ég trúi því að núv. hæstv. ráðherra vilji gera það en ég veit líka að fyrri ráðherrar hafa ætlað sér það.

Ég held því að miklu máli skipti að réttar ákvarðanir séu teknar í samstarfi við lækna. Ég held að annað atriði sem þurfi að skoða þarna alvarlega og miklu meira en gert hefur verið sé verkaskiptingin í heilbrigðisþjónustunni, þ.e. hvaða verk á að vinna í hvaða hluta kerfisins. Það er þar sem skórinn kreppir mjög alvarlega hjá okkur, þ.e. að fjöldinn allur af störfum sem heilsugæslan á að geta sinnt fer nú fram á sjúkrahúsum. Létta þarf þessari vinnu af sjúkrahúsunum og þar með þeim kostnaði því að hægt er að gera ýmis atriði mun hagkvæmar utan sjúkrahúsa. (Forseti hringir.) Valfrjálst stýrikerfi var hugsað sem leið til þess og ég hvet ráðherra heilbrigðismála til að koma á stofn nefnd nú í sumar til að fjalla um þetta mál.