Heilbrigðismál

Þriðjudaginn 02. júní 1998, kl. 17:24:59 (7273)

1998-06-02 17:24:59# 122. lþ. 140.94 fundur 435#B heilbrigðismál# (umræður utan dagskrár), RG
[prenta uppsett í dálka] 140. fundur, 122. lþ.

[17:24]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra nefndi í ræðu sinni barnaspítala og að framkvæmdir yrðu hafnar við hann í sumar. Heilbrrh. hefur notið stuðnings okkar jafnaðarmanna varðandi barnaspítala og það er ekki að undra vegna þess að Guðmundur Árni Stefánsson fór af stað með það mál þegar hann var heilbrrh. og náði samkomulagi um upphafsfjármögnun á barnaspítala. Það er búið að taka allt kjörtímabilið að komast af stað með þetta verkefni og búin að vera allt of löng töf í þessu máli hjá ríkisstjórninni. Byrjað verður að moka upp úr grunninum bærilega tímanlega fyrir kosningabaráttuna sem hefst í haust til að geta bent á að framkvæmdir séu komnar í gang í kosningabaráttunni. Ég mundi ekki hreykja mér af þessu máli í sporum heilbrrh., svo mikinn stuðning sem hún hefur fengið frá okkur í því og svo seint sem það mál hefur gengið, sérstaklega ekki þegar forsrh. hefur komið hér og boðað samdrátt ríkisútgjalda því við þekkjum hvar sá ríkisútgjaldaniðurskurður lendir.

Herra forseti. Það var athyglisvert að hlusta á orð Katrínar Fjeldsted. Hún vill að ákveðið sé hvaða verk á að vinna hvar og hún vill nefnd í það mál. Það skil ég. Á sama tíma komu aðrir hér og töluðu um að fullkomin stefnumörkun sé í gangi og við bara ómerkileg að vera að ræða heilbrigðismál.

Ég ætla að nefna samtal sem ég átti fyrir viku síðan. Þá kom að máli við mig læknir sem búinn er að vera heimilis- og heilsugæslulæknir frá 1979 og er nú svokallaður forstöðulæknir. Það var svolítið annað hljóð í honum og er það þó ekki gunguháttur sem einkennir þann mann. Hann minnti á að heimilislæknar hefðu gengið út 1996 og það hefði verið mikið uppistand, eðlilega. Það sem þá gerðist var áhyggjuefni fyrir alla. En hann segir að núna sé það sama að gerast, bara hægt og hljótt og þreytulega. Þessi maður segir mér að sl. ár hafi verið að byggjast upp vaxandi gremja bæði hjá læknum og hjúkrunarfræðingum. Endurtekinn niðurskurður, endurtekinn sparnaður, ýmislegt tekið af sem fólki þykir ósanngjarnt að tekið sé af því, og hægt og sígandi verður til stórt svart vandamál innan heilbrigðiskerfisins. Það er ekki stjórnarandstaðan á Alþingi sem er að búa það til. Hann heldur því fram að einn góðan veðurdag bresti þessi stífla alvarlega. Á sama tíma er talað um að sett hafi verið fram stefna í 21 lið í málefnum heilsugæslunnar. Ég þekki þennan lækni afskaplega vel og veit hvaða hugsjónir hann ber fyrir brjósti um heilsugæsluna og verkefnin þar. Hann segir að ungt fólk sem er erlendis vilji ekki koma heim. Það er tortryggni og neikvæðni út í hið opinbera. Það er uppsafnaður vandi og upp úr sýður á ákveðnu augnabliki, ekki endilega á erfiðasta og versta augnablikinu heldur augnablikinu þar sem smellur.

Hann sagði mér að þrír sérfræðingar séu á svæðinu hjá sér, sem er utan Reykjavíkur. Enginn fáist til starfa og það sé undirmönnun. Reykjavík fái eitthvað af fólki en 32 læknar útskrifuðust í vor og 44 aðstoðarlækna vanti á stóru sjúkrahúsin. Stóru sjúkrahúsin fá eitthvað af þeim mannskap sem þau vantar en aðrar sjúkrastofnanir ekkert. Hann segir hreint og beint að það sé vandræðaástand, fólk sé pínt áfram og ef ekki takist að skapa eðlilegt andrúmsloft hrynji kerfið hægt og rólega. Þetta snýst um launamál, traust og virðingu, segir þessi ágæti maður.