Heilbrigðismál

Þriðjudaginn 02. júní 1998, kl. 17:41:51 (7277)

1998-06-02 17:41:51# 122. lþ. 140.94 fundur 435#B heilbrigðismál# (umræður utan dagskrár), heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 140. fundur, 122. lþ.

[17:41]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Þetta hefur verið ágætisumræða og við höfum farið yfir stefnuna og ég skal fara yfir hana aftur. Það er enginn vandi að snúa út úr ef menn vilja svo við hafa en ég ætla að taka heilsugæsluna fyrst.

Ég lagði fram skýra stefnumótun í heilsugæslunni fyrir tveim árum í 21 lið. Við höfum unnið alla þessa punkta nema valfrjálst stýrikerfi. Allir þessir punktar eru komnir til framkvæmda á einn eða annan hátt. Við höfum fjölgað heilsugæslulæknum, við höfum byggt upp heilsugæsluna, við höfum tölvuvætt heilsugæsluna o.s.frv. Og við erum að vinna þessari stefnu framgang varðandi valfrjálst stýrikerfi. En það kom ekki fram í umræðunni áðan, einmitt vegna heilsugæslunnar úti á landi, að við bættum 22. punkti við þennan 21 punkt sem eru ný ökutæki fyrir heilsugæsluna úti á landi. Við erum að kaupa í kringum 40 bifreiðar fyrir heilsugæsluna úti á landi til að auka þar öryggi. (Gripið fram í: Það segir lítið ef ekki ...) Það er til þess að auðveldara sé að fá lækna til starfa, hv. þm., einfaldlega. (Gripið fram í: Það var svona en þið afnámuð ...)

Hv. þm. Margrét Frímannsdóttir kom inn á ýmsa þætti áðan og gerði mjög lítið úr því forvarnastarfi sem er í gangi. Ef við hefðum unnið forvarnastarf okkar eins og vera ber fyrir 3--5 árum stæðum við kannski ekki frammi fyrir þeim vanda sem við stöndum í dag og þess vegna er mikilvægt að halda áfram að vinna á þessum grunni.

Það má líka gera lítið úr því að gerður hafi verið samningur við sveitarfélög og frjáls félagasamtök. (MF: Það er enginn að gera lítið úr því.) eins og við höfum gert um allt land og unnið með SÁÁ, sem hefur mikla reynslu í sambandi við þessi mál. Varðandi meðferðarúrræði fyrir unga vímuefnaneytendur sem er stóra málið, þá eru SÁÁ, Barnaverndarstofa og geðdeild Landspítalans að vinna saman að því hvaða úrræði við eigum að taka næst í sameiningu. Við erum með nægilega mörg úrræði en þessi mál verða sífellt að vera í endurskoðun. (MF: Af hverju er þá verið að loka ...) Við erum alltaf að sjá erfiðari og erfiðari dæmi.

Það er stefna í forvörnum. Það er stefna í heilsugæslumálum. Það er stefna varðandi sjúkrahúsmálin og hv. þm. Sighvatur Björgvinsson sagði áðan: Er hæstv. ráðherra sammála því sem uppi er varðandi t.d. parsjúkrahús? Það er að sjálfsögðu lykillinn að samhæfingu sjúkrahúsanna. Ég taldi upp áðan hvar við hefðum náð mestum árangri. Það er einmitt þar sem við höfum náð þessari samhæfingu, í öldrunarmálum, í endurhæfingunni og erum núna að vinna að öðrum þáttum. Stefnan er því skýr.

Við eigum núna stefnu varðandi forgangsröðun sem við höfum ekki átt áður. Við höfum náð samkomulagi við stjórnarandstöðuna um forgangsröðun og við erum að vinna eftir því.

Hv. þm. Við höfum átt hér nokkuð heita umræðu og kannski allt of stutta en það sem máli skiptir í dag er að vinna áfram að þeirri stefnu sem liggur á borðinu. Við stöndum frammi fyrir því að kjaradeilur eru í gangi varðandi hjúkrunarfræðinga, ekki fyrsta kjaradeilan sem við stöndum frammi fyrir (Forseti hringir.) og því miður ekki sú síðasta. Ég sagði áðan að úrskurðarnefndir eru að vinna að lausn þessara mála og við þurfum að sjálfsögðu að fá botn í þau mál og að því er unnið. Við höfum mánuð (Forseti hringir.) til þess að ljúka þeim málum.