Umræða um heilbrigðismál

Þriðjudaginn 02. júní 1998, kl. 17:49:31 (7281)

1998-06-02 17:49:31# 122. lþ. 140.96 fundur 437#B umræða um heilbrigðismál# (um fundarstjórn), RG
[prenta uppsett í dálka] 140. fundur, 122. lþ.

[17:49]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég tek undir það sem kom fram hjá hv. þm. Láru Margréti Ragnarsdóttur en ég vek líka athygli á því að ekki hefur komið fram ósk á þessum vetri af hálfu stjórnarliða að taka öfluga umræðu um heilbrigðismál þó að það hafi nokkrum sinnum af hálfu stjórnarandstæðinga verið vakið máls á þeirri umræðu.

Hitt er svo hárrétt sem hér hefur komið fram að þingflokkur jafnaðarmanna hefur beðið um öfluga umræðu um heilbrigðismál og sú beiðni hefur legið fyrir hjá stjórn þingsins nokkuð lengi en ekki hefur verið hægt að koma því við að taka þá umræðu. Ég var mjög hörð á því að sú umræða sem hér færi fram yrði ekki undir tveimur tímum. Ég taldi það lágmark við umfjöllun um stöðu heilbrigðismála í lok þings. Það var hins vegar gengið mjög hart eftir því gagnvart þeirri sem hér stendur og öðrum sem komu að málinu að við féllumst á að umræðan yrði eingöngu ein klukkustund og það var orðið við þeirri ósk.

Ég ætla líka að láta það í ljós að mér finnst það afar erfið staða þegar við erum að taka umræðu utan dagskrár um þýðingarmikið mál þegar þremur slíkum umræðum er fyrir komið á einum og sama deginum. Það er frekar slæmt séð frá sjónarhóli þingsins og þingmanna.

Hitt er svo annað mál að þrátt fyrir að þessi umræða væri eingöngu ein klukkustund, sem ég tek undir að var heldur naumt og hef skýrt hvers vegna, þá komu þingmenn að þessu máli frá mjög ólíkum hliðum. Þess vegna náðist að drepa á marga ólíka þætti heilbrigðismála og vekja athygli á, sem var mjög mikilvægt, hve víða pottur er brotinn og taka þarf gífurlega á í þessum málaflokki. Það er áhyggjuefni hve þreyta og þungi er farið að einkenna bæði störf og viðhorf þeirra sem starfa í heilbrigðiskerfinu, vonbrigði, þreyta og þungi. Þess vegna, herra forseti, féllumst við á það að hafa þessa umræðu eina klukkustund því að mjög harkalega var eftir því leitað. En ég tek undir það með hv. þm. Láru Margréti Ragnarsdóttur að það væri mjög gott að hefja umræðuna í haust um heilbrigðismálin með skýrslu heilbrrh. þannig að við getum farið faglega í þessi mál út frá sjónarhóli okkar allra.

(Forseti (GÁS): Forseti verður að árétta að hér er verið að ræða fundarstjórn forseta en ekki störf þingsins. Það er gert í upphafi hvers fundar.)