Þjóðfáni Íslendinga

Þriðjudaginn 02. júní 1998, kl. 18:00:44 (7283)

1998-06-02 18:00:44# 122. lþ. 141.11 fundur 542. mál: #A þjóðfáni Íslendinga# (notkun fánans o.fl.) frv. 67/1998, Frsm. SP
[prenta uppsett í dálka] 141. fundur, 122. lþ.

[18:00]

Frsm. allshn. (Sólveig Pétursdóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. og brtt. allshn. á þskj. 1210 og 1211 um frv. til laga um breyting á lögum nr. 34/1944, um þjóðfána Íslendinga.

Nefndin hefur fjallað um málið og fékk fulltrúa frá forsrn. á sinn fund til viðræðna um það. Þá bárust nefndinni umsagnir um málið auk þess sem stuðst var við umsagnir sem bárust um svipað mál á 121. löggjafarþingi.

Í frv. eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum um þjóðfána Íslendinga. Helstu breytingar frumvarpsins felast í því að gert er ráð fyrir að heimilað verði að nota fánann í vörumerki, á söluvarning og umbúðir og í auglýsingum á vörum eða þjónustu með sérstöku leyfi forsætisráðuneytisins, en jafnfram er kveðið á um þess skuli gætt að viðkomandi starfsemi sé slík að gæðum að fánanum verði ekki gerð óvirðing. Nánari reglur um hvaða kröfur verði gerðar í því skyni verða settar með reglugerð. Leggur nefndin áherslu á að þær verði skýrar og samráð verði haft við Einkaleyfastofu um hvaða viðmiðanir verða nýttar í því sambandi. Áfram verður hins vegar óheimilt að nota fánann í firmamerki. Aðrar breytingar sem frumvarpið felur í sér lúta m.a. að því að lagt er til að ákvæði um fána hafnsögumanns verði felld niður. Þá er lagt til að merki forseta Íslands sé talið upp með öðrum merkjum sem lögin heimila að notuð séu í þjóðfánanum. Einnig er lagt til að ákvæði samkeppnislaga sem bannar að selja vörur af erlendum uppruna ef á umbúðir þeirra hefur verið sett mynd af íslenska fánanum verði fært í lög um þjóðfánann þar sem það þykir eiga betur heima.

Nefndin leggur til nokkrar breytingar á frv.:

Í fyrsta lagi er lagt til að fellt verði brott ákvæði 3. mgr. 12. gr. laganna þess efnis að einstökum stjórnmálaflokkum sé óheimilt að nota þjóðfána í áróðursskyni við kosningaundirbúning eða kosningar. Þykir takmörkun í lögum af þessu tagi sem aðeins nær til stjórnmálaflokka óeðlileg. Í lögskýringargögnum er ekki að finna skýringar á því að hvaða markmiði var stefnt með bannákvæðinu, en hafi ákvæðinu verið stefnt gegn því að einhver stjórnmálaflokkur reyndi að helga sér þjóðfánann umfram aðra flokka eða gerði hann að auðkenni sínu í auglýsingum virðist því markmiði þegar vera náð með banni 2. mgr. 12. gr. þar sem kveðið er á um að félögum sé óheimilt að nota þjóðfánann sem sitt einka- eða auðkennismerki.

Í öðru lagi er lagt til að bætt verði við lögin nýju ákvæði þar sem kveðið er á um að skjaldarmerki Íslands sé auðkenni stjórnvalda ríkisins og að notkun þess sé þeim einum heimil. Lagt er til að ákvæði þessu verði bætt við lögin í stað þess að setja sérstök lög um skjaldarmerki Íslands þar sem slíkt er mun einfaldara og viðaminna í framkvæmd. Af þessari breytingu leiðir að gera verður til samræmingar breytingu á 2. mgr. 29. gr. samkeppnislaga, nr. 8/1993, sbr. breytingartillögu nefndarinnar við 11. gr. frumvarpsins. Þá er í tengslum við þessa breytingu lagt til að heiti laganna verði lög um þjóðfána Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið.

Einnig er lögð til orðalagsbreyting á reglugerðarheimild í 13. gr. laganna.

Þá er lögð til breyting á 14. gr. laganna þess efnis að orðið varðhald verði fellt brott úr greininni til samræmis við frumvarp dómsmálaráðherra sem liggur fyrir þinginu um afnám varðhaldsrefsingar.

Loks er lagt til að gerð verði breyting á ákvæði 1. mgr. 32. gr. laga um vörumerki, nr. 45/1997, en þar eru tæmandi talin skilyrði þess að vörumerki verði afmáð úr vörumerkjaskrá. Leggur nefndin til að ákvæði þess efnis að ef skrásett hefur verið af misgáningi vörumerki þar sem notaður er þjóðfáni án heimildar forsætisráðuneytis skuli það afmáð úr vörumerkjaskrá að kröfu forsætisráðuneytis.

Nokkrar umræður urðu í nefndinni um notkun fánans og komu þau sjónarmið fram að æskilegt væri að almenningur notaði fánann meira en raun ber vitni. Í ljósi þessa leggur nefndin áherslu á að forsrn. beiti sér á ný fyrir útgáfu handbókar um meðferð og notkun fánans og geri reglur þar um aðgengilegar almenningi en slíkt rit var gefið út á árinu 1991 en er nú uppselt. Nefndin mælir því með samþykkt frv. með áðurnefndum breytingum og rita allir nefndarmenn undir álitið að undanskildum Hjálmari Jónssyni sem var fjarverandi við afgreiðslu málsins.