Eftirlit með starfsemi stjórnvalda

Þriðjudaginn 02. júní 1998, kl. 18:18:26 (7285)

1998-06-02 18:18:26# 122. lþ. 141.12 fundur 11. mál: #A eftirlit með starfsemi stjórnvalda# þál. 24/122, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 141. fundur, 122. lþ.

[18:18]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég þarf út af fyrir sig ekki að hafa mörg orð um þessa tillögu vegna þess að um þá niðurstöðu sem formaður hefur mælt hér fyrir hefur tekist góð sátt í nefndinni. Að vísu er það svo að tillagan hefur tekið nokkrum breytingum frá því ég lagði hana fram í haust. Engu að síður eru markmiðin þau sömu, þ.e. að skýra betur siðferðisreglur sem gilda eigi í stjórnsýslunni og að auka ábyrgð í stjórnsýslunni, eins og fram kemur í þeim tillögum sem nefndin flytur.

Allir aðilar sem leitað var umsagna hjá mæltu með samþykkt þessarar tillögu eins og Siðfræðistofnun og Samband ísl. sveitarfélaga, ASÍ og Bandalag háskólamanna svo dæmi séu nefnd.

Í tillögunni sem lögð var fyrir þingið var lagt til að nefndin yrði skipuð þremur aðilum, að forsrh. skipaði nefndina og að aðili tilnefndur af forsrh. yrði formaður nefndarinnar, einn tilnefndur af Hæstarétti Íslands og einn tilnefndur af Siðfræðistofnun Háskóla Íslands.

Niðurstaðan var engu að síður sú að binda ekki í tillöguna hvernig nefndin yrði skipuð, sem ég tel að vísu miður, vegna þess að ég legg mikla áherslu á að aðili eins og t.d. Siðfræðistofnun Háskóla Íslands, sem hefur skoðað mjög þetta mál sem við fjöllum hér um, komi að því. En fulltrúi frá forsrn., sem mætti hjá nefndinni, taldi að efnistökin í nefndinni yrðu með þeim hætti að leitað yrði til margra aðila og fleiri aðila en getið var um í tillögugreininni sjálfri, og fram kom hjá honum að það væri sjálfsagt að nefndin leitaði til þeirra stofnana sem að framan getur um ákveðna þætti í starfi sínu og eðlilegt að þær komi með þeim hætti að starfi hennar.

Þannig að ég treysti því, herra forseti, að við meðferð þessarar tillögu hjá framkvæmdarvaldinu, sem á að skila niðurstöðum sínum til Alþingis fyrir frestun á vorþingi 1999, verði leitað til Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands.