Skipan opinberrar nefndar um auðlindagjald

Þriðjudaginn 02. júní 1998, kl. 18:32:28 (7293)

1998-06-02 18:32:28# 122. lþ. 141.18 fundur 465. mál: #A skipan opinberrar nefndar um auðlindagjald# þál. 26/122, Frsm. 1. minni hluta KH
[prenta uppsett í dálka] 141. fundur, 122. lþ.

[18:32]

Frsm. 1. minni hluta umhvn. (Kristín Halldórsdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. um till. til þál. um skipan opinberrar nefndar um auðlindagjald, sem 1. minni hluti umhvn. flytur. Nál. er á þskj. 1343 og hljóðar svo, með leyfi forseta:

Þingkonur Kvennalistans hvetja eindregið til víðtækrar umræðu og umfjöllunar um auðlindir í sinni víðustu merkingu og hvernig með þær auðlindir skuli farið. Einn þáttur þeirrar umfjöllunar er hvernig staðið skuli að gjaldtöku fyrir afnot af auðlindum lands og sjávar og hvernig tryggja megi að afrakstur sameiginlegra auðlinda skili sér á sanngjarnan hátt til réttmætra eigenda og þeirra sem hagsmuna eiga að gæta. Auk þess að stefna að hámarksarðsemi þarf að leitast við að tryggja að nýting sameiginlegra auðlinda grundvallist á forsendum sjálfbærrar þróunar og byggist á öflugum rannsóknum.

Vegna vanþekkingar og skorts á heildarsýn hefur verið gengið of nærri mörgum af auðlindum þessa lands og er afar nauðsynlegt að bæta vinnubrögð í því efni. Sú nefnd sem hér er gerð tillaga um er þó ekki af þeirri gerð að hún sé líkleg til að skila gagnlegum niðurstöðum. Samkvæmt henni á Alþingi að kjósa níu manna nefnd til þessa verks og engin skilyrði eru að öðru leyti um skipan slíkrar nefndar. Hér er því augljóslega aðeins um pólitíska ákvörðunarnefnd að ræða sem mun byggjast á núverandi valdahlutföllum stjórnmálaflokkanna á Alþingi. Nefndin fær heldur ekki skýrt skilgreindar forsendur í veganesti nema að því er varðar ráðstöfun auðlindagjalds sem samkvæmt tillögunni á að verja á ákveðinn hátt. Niðurstaðan í því efni er nánast gefin fyrir fram og því ólíklegt að fjallað verði um allar hliðar þess eins og nauðsynlegt er.

Mikilvægt er að sem víðtækust sátt náist meðal landsmanna um vernd, nýtingu og afrakstur auðlinda lands og sjávar. Þingkonur Kvennalistans hefðu talið æskilegt að efna til faglegrar vinnu um þessi efni og fela verkið fagmönnum á sviði hagvísinda, félagsvísinda og náttúruvísinda sem fjölluðu um það út frá efnahagslegum, líffræðilegum og siðferðilegum forsendum. Á grunni slíkrar vinnu væri unnt að móta heildstæða stefnu um nýtingu auðlinda. Þeim tilgangi verður ekki náð með framkvæmd þessarar tillögu og því mun 1. minni hluti sitja hjá við afgreiðslu hennar.

Kristín Halldórsdóttir skrifar undir þetta nál.

Herra forseti. Við þetta er í rauninni litlu að bæta. Þetta álit lýsir nákvæmlega afstöðu okkar þingkvenna Kvennalistans til þessarar tillögu sem við teljum ekki þeirrar gerðar að hún færi okkur nær skynsamlegri niðurstöðu um gjaldtöku fyrir nýtingu auðlinda okkar til lands og sjávar.

Það liggur fyrir að þessi till. hv. þm. Alþb. verður samþykkt með góðfúslegum og að því er virðist nánast fagnandi stuðningi stjórnarflokkanna. Ég vil ítreka það sem kemur fram í nál. að hér verður fyrst og fremst um pólitíska nefnd að ræða en ekki faglega og ég er út af fyrir sig sammála þeirri niðurstöðu 2. minni hluta nefndarinnar að til pólitískrar umfjöllunar um þetta mál þurfi ekki óendanlegan tíma. Hann leggur sem sé til á sérstöku þingskjali að starfslok nefndarinnar verði fyrir árslok 1998. Við þingkonur Kvennalistans sjáum hins vegar ekki að það breyti neinu og munum sitja hjá við afgreiðslu þeirrar brtt. svo og við afgreiðslu tillögunnar í heild, eins og lýst er í nál. á þskj. 1343.