Lögverndun á starfsheiti grunnskólakennara

Þriðjudaginn 02. júní 1998, kl. 21:19:59 (7305)

1998-06-02 21:19:59# 122. lþ. 141.20 fundur 445. mál: #A lögverndun á starfsheiti grunnskólakennara# (heildarlög) frv. 86/1998, menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 141. fundur, 122. lþ.

[21:19]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessar umræður en vil aðeins minnast á þrjú atriði. Í fyrsta lagi er ekki rétt að það sé trúnaðarbrestur milli menntmrn. og kennarasamtakanna um meginefni þessa frv. Það er hins vegar alveg ljóst að kennarasamtökin hafa ekki fallist á þær breytingar á 12. gr. frv. sem mest hafa verið ræddar hér. Það lá fyrir í fyrra og liggur fyrir núna og hefur legið fyrir frá því ég flutti þetta frv. að kennarasamtökin telja æskilegt að menn taki 30 eininga nám í kennslufræði til að öðlast þau réttindi sem hér er um að ræða. Ég tel hins vegar að það séu mjög mörg og góð rök fyrir því að hafa þetta 15 einingar í þeim tilvikum sem frv. gerir ráð fyrir, þ.e. ef menn hafa mikla og góða fagþekkingu í sinni grein og einnig ef þeir hafa mikla reynslu af störfum í því námi sem lýtur að tækninámi og starfsnámi. Það er í góðu samræmi við framhaldsskólalögin að þetta sé gert. Það er gerð krafa um aukna sérhæfingu samkvæmt þeim lögum og það er nauðsynlegt að auðvelda skólunum að fá slíka menn til starfa innan skólanna. Þetta er því í fullu samræmi við þær ákvarðanir sem Alþingi hefur tekið í nýjum framhaldsskólalögum og þá stefnu sem mótuð hefur verið, að efla sérhæfingu á framhaldsskólastiginu og þá þarf að sjálfsögðu einnig kennara með mikla og góða sérmenntun. Það er útúrsnúningur sem hér hefur komið fram að túlka 12. gr. með þeim hætti sem gert hefur verið. Það verður sett reglugerð á grundvelli 12. gr. eins og stendur í lokamálsgrein hennar og þar verður að sjálfsgöðu leitast við að skilgreina þetta með því markmiði sem ég hef lýst, að ætlunin er að fá til starfa í skólunum menn með sérþekkingu án þess að þeir þurfi að taka 30 einingar í uppeldis- og kennslufræði. Þeir taki 15 einingar og fái þá full réttindi til starfa sem framhaldsskólakennarar.

Þetta er kjarni málsins og er að mínu mati ekki flókið að færa rök fyrir þessu þótt komið hafi fram athugasemdir frá ýmsum aðilum sem leggja meiri áherslu en ég í þessum tillögum á uppeldis- og kennslufræði, þá hafa einnig fjölmargir aðilar komið fram og lýst yfir stuðningi við þá stefnu sem mótuð er í frv. Það hafa einnig fjölmargir kennarar látið mig heyra að þetta sé skynsamleg stefna. Það er engin eining um þetta mál innan kennarasamtakanna, þótt forustusveit kennara hafi lýst þessari skoðun sinni. Ég hef rætt þetta á mörgum kennaraþingum og er óhræddur við að verja þennan málstað meðal kennara. Hann nýtur þar skilnings hjá mörgum, sérstaklega hjá nemendum líka sem meta það að unnt sé að kalla sérmenntaða menn til starfa í skólunum. Menn ættu að lesa þær umræður sem urðu t.d. í framhaldi af TIMSS-skýrslunum um þennan þátt í skólastarfinu þegar vísað er til þess að þetta sé í ósamræmi við niðurstöðurnar í TIMSS-könnuninni. Hafa menn gleymt þeim umræðum sem fóru fram um þetta mál sérstaklega þegar sú könnun birtist og vakin var athygli á því hve mörgum sérmenntuðum kennurum væri gert erfitt fyrir að komast inn í skólana, vegna ákvæðanna um uppeldis- og kennslufræðieiningarnar? Menn skulu því hafa það í huga þegar þetta mál er rætt að hér er alls ekki verið að slaka á kröfum, það er verið að gera öðruvísi kröfur en gerðar hafa verið. Það er ekki í neinu verið að slaka á kröfum um þá þekkingu sem kennarar eiga að hafa þegar þeir taka til starfa í skólunum.

Þetta var um efni 12. gr. og hinn svokallaða trúnaðarbrest. Hann lýsir sér ekki í t.d. afstöðu til sérkennaranna. Þar er ekki hægt að tala um neinn trúnaðarbrest milli menntmrn. og kennarasamtakanna. Þar hafa ráðuneytið og forustumenn kennarasamtakanna verið alveg sammála um það sem stendur í frv. og er skýrt í greinargerð með frv. þar sem segir um 5. gr.:

,,Einnig eru felld út ákvæði í 4. gr. gildandi laga um skilyrði þess að vera skipaður eða ráðinn sérkennari við sérskóla eða sérdeildir grunnskóla þar sem þessar deildir og skólar eru hluti af almennum grunnskóla.``

Þetta verða menn að hafa í huga. Það er búið að endurskipuleggja grunnskólann þannig að það er ekki lengur hægt að tala um sérskóla og hinn almenna grunnskóla og þess vegna er verið að tala um að allir eigi að hafa þessi almennu réttindi. Síðan er gerð krafa til þess, eða veitt heimild til þess að í 8. til 10. bekk grunnskólans geti menn notið sinna sérréttinda og sérþekkingar eins og vikið hefur verið að. Þetta verða menn að hafa í huga þegar þeir ræða um sjónarmið sérkennaranna og þeir verða líka að hafa það í huga að þegar unnið var að samningu frv., því það er 12. gr. sem menn greindi á um, ráðuneytið og kennarasamtökin, þá var ekki ágreiningur á milli ráðuneytisins og kennarasamtakanna um þetta enda töldum við og teljum að það sé í bestu samræmi við grunnskólalögin að hafa þetta eins og það er núna, að ekki sé verið að skilja á milli sérkennara annars vegar og annars konar kennara hins vegar, heldur sé verið að ræða um almenn kennararéttindi og það sé það sem okkur er falið að gera samkvæmt grunnskólalögunum. Það eru því full rök fyrir því að taka ekki hóp sérkennara sérstaklega út úr heldur ber að líta á það að menn tóku þessar ákvarðanir með grunnskólalögunum. Í 2. mgr. 38. gr. laga um grunnskóla er kveðið á um það að sérmenntaðir kennarar skuli annast kennslu í sérdeildum, sérskólum þar sem því verður við komið. Það er ekkert sem bannar það að sérkennarar komi inn í sérdeildir og sérskóla en það þýðir ekki að veita þurfi þeim einhver önnur réttindi en kennurum almennt. Þetta verða menn að hafa í huga þegar þeir ræða þetta og menn verða að miða við lagarammann sem skólanum hefur verið settur, bæði grunnskólanum og framhaldsskólanum þegar þeir ræða þetta frv. Þegar grunnskólalögin mæla fyrir um það að allir nemendur hafi sama rétt til að fara í sama skóla, þá er óeðlilegt að fara að flokka allt í einu kennarana sérstaklega. Það á líka að láta sama gilda um kennarana, hvaða kennslu sem þeir sinna, samkvæmt því meginmarkmiði sem menn settu sér með grunnskólalögunum. Og þegar framhaldsskólalögin gera ráð fyrir meiri sérhæfingu bæði í starfsnámi og bóknámi þá er líka eðlilegt að þegar sett eru lög um kennarastarfið taki menn mið af því eins og gert er í 12. gr. frv. að því er framhaldsskólakennarana varðar. Menn verða því að líta á þetta í samhengi og heild þegar þeir ræða þessi mál, en ekki að slíta það úr þeim starfsramma sem kennurum er settur og menntamálayfirvöldum er settur með lögunum um grunnskólann og framhaldsskólann.

Herra forseti. Ég tel að ég þurfi ekki að fara orðum um fleiri atriði í þessu frv. Það hefur raunar allt komið fram áður sem ég var að segja en þó er ástæða til að árétta þetta sérstaklega, minna menn á starfsrammann og minna menn á þær almennu reglur sem settar eru í lögunum um grunnskóla og framhaldsskóla og hafa þau í huga þegar þetta frv. er afgreitt.