Lögverndun á starfsheiti grunnskólakennara

Þriðjudaginn 02. júní 1998, kl. 21:28:23 (7306)

1998-06-02 21:28:23# 122. lþ. 141.20 fundur 445. mál: #A lögverndun á starfsheiti grunnskólakennara# (heildarlög) frv. 86/1998, SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 141. fundur, 122. lþ.

[21:28]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Aðeins fyrst um sérkennara. Ef lögin eru svona skýr að mati hæstv. menntmrh. hljótum við að velta enn frekar vöngum yfir því af hverju orðið sérkennari kemur þá fyrir í einhverri af þeim reglugerðum sem fjalla um kennslu í sérskólum eða sérkennslu innan grunnskólans, því þannig er það. Og það þyrfti þá að endurskoðast og koma frekari útskýring á því.

Hins vegar vakti það athygli mína hve hæstv. ráðherra talaði af miklu öryggi um að 15 eininga námið nægði undir ákveðnum kringumstæðum. Ég vildi gjarnan að hann útskýrði fyrir okkur, því það hafa aðrir ekki getað gert, í hverju þetta 15 eininga nám ætti að vera falið. Menn tala um auknar kröfur til kennara í dag og faglegar kröfur til kennara eru ekki bara í grein heldur líka í því að kunna að miðla námsefninu. Það eru kröfur um námsmat, kröfur um mat á skólastarfi, kröfur um námsgagnagerð, kröfur um skólanámskrárgerð, kröfur um aukna þjálfun á vettvangi og kröfur um að kennari geti miðlað með nýrri tækni. Ég spyr hæstv. menntmrh.: Hvað af þessu telur hann þá að sé mikilvægast að komist fyrir inni í 15 eininga náminu? Mér er það ekki ljóst eins og ég sagði. Ég hef reynt að spyrja þá sem hafa verið að kenna og hafa verið að skipuleggja nám af þessu tagi, þeim er það ekki ljóst heldur vegna þess að ef ég hef skilið málið rétt er það varla að 30 einingar nægi í dag, miðað við þær síauknu kröfur sem gerðar eru til kennara.