Lögverndun á starfsheiti grunnskólakennara

Þriðjudaginn 02. júní 1998, kl. 21:43:09 (7314)

1998-06-02 21:43:09# 122. lþ. 141.20 fundur 445. mál: #A lögverndun á starfsheiti grunnskólakennara# (heildarlög) frv. 86/1998, Frsm. meiri hluta SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 141. fundur, 122. lþ.

[21:43]

Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigríður A. Þórðardóttir):

Herra forseti. Það eru fáein atriði sem ég vildi gera að umtalsefni nú þegar dregur að lokum þessarar umræðu. Hv. þm. Guðný Guðbjörnsdóttir nefndi áðan að málið hefði ekki verið sent til umsagnar. Ég vil gera athugasemd við það vegna þess að frv. kom fyrst fram og var lagt fram til kynningar á síðasta þingi og var þá sent til umsagnar. Og við studdumst við þær umsagnir sem þá bárust þegar við fjölluðum um málið þegar það kom síðan aftur fram í vetur. Það höfðu ekki verið gerðar þær efnisbreytingar á frv. að ástæða væri til þess að senda það aftur út til umsagnar og það voru ekki gerðar athugasemdir við þá málsmeðferð í þingnefndinni. Þetta vildi ég sérstaklega taka fram.

Ráðherra hefur síðan svarað hér ágætlega spurningum þingmanna varðandi sérkennarana. Hins vegar er alveg ljóst að ágreiningurinn við kennarasamtökin snýst fyrst og fremst um 12. gr. Um þá grein er ágreiningur. Kennarasamtökin komu að samningu --- eða það var starfshópur sem þeir áttu sæti í sem kom að smíði frv. en um þetta efni, 12. gr. og 15 eininga kennslufræðinámið gerðu kennarasamtökin síðan ágreining. Þau voru einfaldlega ósammála því sem varð niðurstaða í menntmrn., að slaka til frá 30 eininga kennslufræði í 15 við sérstakar aðstæður. Það hefur verið fullyrt hér að verið væri að lækka kröfur til kennara. Ég er algjörlega ósammála því. Ég tel að það séu full rök fyrir því að fara þessa leið, fyrst og fremst þau að það er önnur og verðmætari þekking sem menn eru að sækjast eftir, þ.e. aukin fagþekking í grein og líka betri samskipti skóla og atvinnulífs.

Við þekkjum öll að það hefur verið gagnrýnt að fólk sem hefur mikla fagþekkingu, t.d. doktorspróf, þurfi að fara í heilsársnám í kennslufræði til að öðlast kennsluréttindi í framhaldsskóla. Margt af þessu fólki hefur þá í raun og veru ekki lagt fyrir sig kennslu í framhaldsskóla sem það annars kannski hefði viljað leggja fyrir sig ef það hefði getað öðlast kennsluréttindin, t.d. með 15 eininga námi eins og þetta frv. gerir ráð fyrir. Það er alveg ljóst að það er mikil þörf á því að fá inn í framhaldsskólana fólk sem er með mikla fagþekkingu í kennslugreinum.

Ég tel að þau rök séu fullgild og ég vona að þetta frv., þegar það verður að lögum, verði til þess að því fólki fjölgi í framhaldsskólunum sem hefur langa og mikla fagmenntun að baki.