Lögverndun á starfsheiti grunnskólakennara

Þriðjudaginn 02. júní 1998, kl. 22:03:11 (7323)

1998-06-02 22:03:11# 122. lþ. 141.20 fundur 445. mál: #A lögverndun á starfsheiti grunnskólakennara# (heildarlög) frv. 86/1998, GGuðbj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 141. fundur, 122. lþ.

[22:03]

Guðný Guðbjörnsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er ákaflega fróðleg umræða. Skil ég þá hæstv. ráðherra þannig að Kennaraháskólinn geti skipulagt tíu ára nám í sérkennslufræðum, hálfs árs nám og fimm ára nám og hvernig nám sem er og tilkynnt: Þetta er sérkennaranám, fimm ára og tíu ára og fimmtán ára og eins árs? Og kennarinn sem kæmi og spyrði hverjar væru lágmarkskröfur fengi þau svör að þær séu engar.

Þetta er alls ekki nógu skýrt. Alveg á sama hátt og Háskóli Íslands skipuleggur núna eins árs nám í uppeldis- og kennslufræðum, af því það er lögbundið, og nú verður væntanlega krafa um að taka upp aðra námsbraut upp á 15 einingar, þá þurfa einhvers staðar að vera leiðbeiningar um það hvað þetta er mikið nám. En þær er ekki að finna. Það er tekið út úr þessu frv. og þess vegna er þessi stétt, heil stétt í algjöru tómarúmi, bæði þeir sem búnir eru að mennta sig til eins árs og til tveggja ára í þessum fræðum.

Mér finnst t.d. mjög fróðlegt hvernig eigi að mennta sérkennara sem eru að fara inn í framhaldsskólann. Annars vegar erum við með nemendur sem eru mjög slakir, t.d. í stærðfræði og hinum ýmsu greinum, og hins vegar erum við með ólæsa nemendur eða lesblinda eða eitthvað slíkt. Hvers konar kröfur á að gera til þessara kennara? Þess vegna finnst mér mjög eðlilegt að það sé til einhvers konar skilgreining á sérkennara í þessum lögum, og hvort gera þurfi kröfu til tveggja ára náms eða eins árs náms o.s.frv. Það er mjög miður, og það hefur alls ekki verið nægilega vel útskýrt, hvers vegna þeim er alfarið sleppt í þessu frv.