Almannatryggingar

Þriðjudaginn 02. júní 1998, kl. 23:22:32 (7330)

1998-06-02 23:22:32# 122. lþ. 141.23 fundur 348. mál: #A almannatryggingar# (lögheimilisskilyrði, slysatrygging sjómanna o.fl.) frv. 59/1998, ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 141. fundur, 122. lþ.

[23:22]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Aðeins örstutt innlegg í umræðuna. Fyrir helgi held ég að ég hafi rökstutt við fyrri hluta þessarar umræðu með ærnum rökum að þessa skerðingarreglu tekjutryggingarinnar ætti að afnema. Ég sýndi fram á það hvernig mannréttindi öryrkja eru fótum troðin með þessari skerðingarreglu.

Hér í kvöld hafa komið enn frekari rök sem hníga að því að niðurstaða mín í ræðunni fyrir helgina hafi verið rétt. Bréfið frá kjaramálanefnd Öryrkjabandalagsins og málflutningur þeirra tveggja þingmanna sem hafa talað hér í kvöld sýna það svo ekki verður um villst að það er verið að brjóta mannréttindi á öryrkjum með þessari skerðingarreglu.

Ég fór vandlega yfir málið í ræðu minni þegar ég mælti fyrir brtt. okkar fulltrúanna í heilbr.- og trn. auk hv. þm. Kristínar Ástgeirsdóttur, og áður en hæstv. ráðherra kemur hér í stólinn til þess að svara þeim spurningum sem varpað hefur verið til hennar, vil ég ítreka þær spurningar sem ég lagði fram í ræðu minni:

Finnst hæstv. ráðherra boðlegt að láta þessa skerðingarreglu viðgangast áfram í ljósi þeirra raka sem komið hafa fram um hversu óréttlát og niðurlægjandi hún er?

Mun hæstv. ráðherra fara að óskum umboðsmanns Alþingis um skýrari lagasetningu um tekjutrygginguna, en 27 síðna álit umboðsmanns er í raun ákall, ákall til þingsins um skýrari lagasetningu.

Og síðast en ekki síst: Mun ráðherra tryggja rétt einstaklings til tekjutryggingar óháð tekjum maka svo mannréttindi verði ekki brotin á öryrkjum áfram?

Það er mjög áríðandi og mikilvægt, herra forseti, að það komi svör við þessum spurningum og öðrum spurningum sem þingmenn hafa varpað fram til ráðherrans í umræðu um þetta stóra réttlætismál.