Almannatryggingar

Þriðjudaginn 02. júní 1998, kl. 23:25:36 (7331)

1998-06-02 23:25:36# 122. lþ. 141.23 fundur 348. mál: #A almannatryggingar# (lögheimilisskilyrði, slysatrygging sjómanna o.fl.) frv. 59/1998, heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 141. fundur, 122. lþ.

[23:25]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Við höfum verið að ræða í kvöld og reyndar í síðustu viku einnig frv. til laga um verulegar réttarbætur fyrir mjög marga einstaklinga hér á landi og Íslendinga sem dveljast erlendis. Um þetta frv. sem verið hefur í heilbr.- og trn. hefur verið mikil samstaða og ég heyri að þingmenn eru tilbúnir að afgreiða málið hér á hinu háa Alþingi áður en þingstörfum lýkur í vor. Það tel ég afar mikilvægt.

Við þetta frv. sem ég lagði fram eftir áramót, og verður vonandi að lögum innan tíðar, sem verður mikil réttarbót fyrir hundruð Íslendinga, hefur komið fram mjög viðamikil brtt. frá nokkrum hv. þm. Brtt. hefur verið rædd hér og ýmis rök færð fyrir því að rétt sé að bæta henni við það frv. sem hér liggur fyrir. Ég hef látið skoða þessa brtt. nokkuð ítarlega bæði í heilbrrn. og eins í Tryggingastofnuninni og ég verð að láta það koma hér fram að brtt. er ekki í samræmi við ábendingar og álit umboðsmanns Alþingis eins og hér hefur verið ýjað að varðandi tekjutrygginguna. Svo umfangsmikla breytingu sem hér er lögð til er ekki hægt að gera á þeim fáu dögum sem eftir lifir þings. Nýjasta úttekt sem Tryggingastofnun hefur látið gera fyrir heilbrrn. varðandi þessi mál er sú að brtt., ef hún er tekin alveg hrá, kostar 360--400 millj. kr. Það er 360--400 millj. kr. útgjaldaaukning fyrir heilbr.- og trmrn. og ekki í samræmi við fyrstu úttekt sem gerð var, þar sem Tryggingastofnun vildi meina að svo margir mundu missa lífeyrisgreiðslur við þetta að þetta mundi spara ríkinu 60 milljónir, sem mér fannst nú alltaf ótrúlegt og ekki í samræmi við það sem við vildum láta fram ganga.

En miðað við þá úttekt sem þegar hefur verið gerð, og ég er tilbúin að dreifa til fulltrúa heilbr.- og trn., þá er þetta útkoman. Ég tel það affarasælast fyrir okkur að vinna þetta mál í sumar og gera það þannig að það komi þeim til góða sem mest þurfa á að halda, í stað þess að samþykkja hér brtt. sem er mjög hrá og ekki fullkomlega unnin, heldur gefa okkur tíma til hausts til að vinna hana.

En ég vona að sú brtt. sem hér liggur fyrir verði ekki til þess að góðu máli sem liggur hér á borðum þingmanna verði frestað til hausts.