Almannatryggingar

Þriðjudaginn 02. júní 1998, kl. 23:38:02 (7339)

1998-06-02 23:38:02# 122. lþ. 141.23 fundur 348. mál: #A almannatryggingar# (lögheimilisskilyrði, slysatrygging sjómanna o.fl.) frv. 59/1998, MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 141. fundur, 122. lþ.

[23:38]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er til fólk í þessu þjóðfélagi sem hefur verulegar tekjur. Það er rétt. Það eru líka til hjón, fullfrísk, þar sem hvort um sig hefur verulegar tekjur og engum hefur dottið í hug að bjóða öðru þeirra upp á það að vinna fyrir lægri laun vegna þess að makinn hafi svo góðar tekjur, að það skuli skerða laun annars hjóna. Ef tekjur maka eru yfir ákveðnu marki, þá þurfi ekki að borga hinum svo há laun. Þá gætum við þingmenn t.d. verið á afar misjöfnum launum, vegna þess að tekjur maka okkar eru afar misjafnar. En engum hefur dottið í hug að skerða tekjur okkar þess vegna. Ég verð að segja það, virðulegi forseti, að hæstv. ráðherra hefur ekki svarað neinu. Það hefur aldrei staðið til hjá okkur að stoppa frv. sem hæstv. ráðherra lagði fram, aldrei, og þó þarf ekki að tyggja það upp aftur og aftur að mikið sé nú gott að við ætlum ekki að stoppa það, það hefur bara aldrei staðið til og er fráleitt að halda áfram að tuða á því hér í ræðustól að það hafi nú hugsanlega kannski staðið til hjá okkur. Það er eins og í áliti umboðsmanns Alþingis og ráðuneytisins, það er alltaf verið að ætla okkur eitthvað annað en það sem við erum að gera. Við erum að fara fram á leiðréttingu hér til viðbótar þeirri nauðsynlegu leiðréttingu sem hæstv. ráðherra er að gera. Ég spurði hæstv. ráðherra: Standast verk hæstv. ráðherra og ákvarðanir meginreglur Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðra? Standast þessi verk, þessar ákvarðanir? Tekjur maka eiga ekki að skerða tekjur öryrkjans. Hann er einstaklingur og við erum að tala um tekjur en ekki ölmusugreiðslur. Við erum ekki að tala um ölmusugreiðslur. Það eru ekki forréttindi þeirra sem hafa miklar tekjur að geta þess vegna búið með öryrkja. Þetta er ekki þannig að við séum að tala um eitthvert forréttindamál.