Almannatryggingar

Þriðjudaginn 02. júní 1998, kl. 23:40:42 (7340)

1998-06-02 23:40:42# 122. lþ. 141.23 fundur 348. mál: #A almannatryggingar# (lögheimilisskilyrði, slysatrygging sjómanna o.fl.) frv. 59/1998, MF
[prenta uppsett í dálka] 141. fundur, 122. lþ.

[23:40]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég fór í ræðu minni yfir bréf í mörgum liðum frá Öryrkjabandalagi Íslands. Ég gæti þess vegna lesið það upp aftur frá orði til orðs. Ég beindi spurningum í framhaldi af því erindi sem þarna var sent til heilbr.- og trn. þar sem þess er krafist að við þingmenn svörum, og þess krafist að hæstv. ráðherra svari og ég á afar erfitt með að trúa því, virðulegi forseti, að einu svörin sem koma hér fram séu þau að þessi tillaga sem við höfum flutt hér, nokkrir hv. þm. kosti 360--400 millj., algjörlega órökstutt, bara eitthvað svona út í loftið. Ekki neinn rökstuðningur þar um. Það hefði verið eðlilegt í ljósi þess að þessi umræða er búin að vera á dagskrá nokkuð lengi að dreifa þá þessum gögnum. Hæstv. ráðherra sagði líka að það þyrfti að vinna þetta svo ofsalega vel í sumar þannig að þetta nýttist þeim sem mest þurfa á að halda. Hæstv. ráðherra sagði okkur ekki hverjir það eru sem mest þurfa á þessu að halda. Hverjir eru það nákvæmlega? Hvernig skiptir hæstv. ráðherra þessum einstaklingum, þessum hópi þjóðfélagsþegna niður í þrep? Hverjir eru það sem þurfa að mati hæstv. ráðherra á aðstoðinni að halda? Og þá vil ég ekki fá einhver þau svör að það séu bara þeir sem eru í lægstu tekjuhópunum. Hverjir eru það? Á hverjum bitnar þetta allra mest?

Hæstv. ráðherra og ráðuneytið hefur haft ansi langan tíma til að skoða málið og mjög langan tíma til að svara öllum þeim fyrirspurnum sem hefur verið beint til ráðuneytis og hæstv. ráðherra. Ég vil ekki trúa því að hæstv. ráðherra hafi ekki manndóm í sér til að koma og svara því: Brýtur þessi reglugerð, framkvæmd hennar, ákvörðun ráðherra, í bága við þær reglur sem við höfum undirgengist, meginreglur Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðra? Ég skal fara yfir þær aftur, virðulegi forseti. Það er nauðsynlegt að gera það þar sem hæstv. ráðherra svaraði ekki og ég hlýt að halda að það hafi verið vegna þess að það sem ég sagði hafi farið fram hjá henni en ekki vegna þess að hæstv. ráðherra ætli ekki að svara.

Meginreglur Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðra, þ.e. grundvallarreglur Sameinuðu þjóðanna um jöfn tækifæri fatlaðs fólks.

Í 8. reglu er kveðið á um að aðildarríkin séu ábyrg fyrir og skuli tryggja hverjum fötluðum einstaklingi félagslegt öryggi og fullnægjandi tekjutryggingu. Telur hæstv. ráðherra að þetta sé gert hér á landi?

Í 6. lið sömu reglu segir enn fremur að ekki skuli dregið úr tekjutryggingu eða hún felld niður fyrr en hinn fatlaði sé orðinn fær um að afla sér viðunandi og öruggra tekna.

Brýtur reglugerð nr. 485/1995 að mati ráðherra í bága við þennan 6. lið 8. reglu í grundvallarreglum Sameinuðu þjóðanna um jöfn tækifæri fatlaðs fólks?

Jafnframt, virðulegi forseti, segir í inngangi 9. reglu orðrétt:

,,Aðildarríkin skulu stuðla að því að fötluðum sé kleift að taka virkan þátt í fjölskyldulífi. Þau skulu tryggja réttindi fatlaðra til mannlegrar reisnar og tryggja að fötluðum sé ekki mismunað með lögum hvað varðar kynferðissambönd, hjónaband og barneignir.``

Er reglugerð nr. 485/1995 í samræmi við þessa 9. grundvallarreglu Sameinuðu þjóðanna um jöfn tækifæri fatlaðs fólks?

[23:45]

Ég hlýt að fara fram á það að hæstv. ráðherra svari þessum spurningum og svari því hvernig hæstv. ríkisstjórn, hvernig ráðuneytið, hvernig hæstv. heilbrrh. ætlar að flokka fatlað fólk, hverjir skuli njóta fullrar tekjutryggingar og hverjir ekki en brjóta samt ekki í bága við þessar reglur og mannréttindasáttmála Evrópu þar sem segir í 14. gr. sáttmálans að réttindi þau og frelsi sem lýst er í samningi þessum skuli tryggð án nokkurs manngreinarálits. Telur hæstv. ráðherra að reglugerð nr. 485/1995 standist mannréttindasáttmála Evrópu og aðrar þær reglur sem við höfum undirritað hjá Sameinuðu þjóðunum? Og telur hæstv. ráðherra að við getum með fullri reisn, staðið hér og sagt að við mismunum ekki aðilum á grundvelli sjónarmiða sem eru byggð á kynferði, kynþætti, litarhætti, þjóðerni, trúarbrögðum, stjórnmálaskoðunum, þjóðfélagsstöðu, ætterni eða öðrum sambærilegum ástæðum eða á grundvelli 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins, þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.``

Telur hæstv. ráðherra að við getum staðið hér og sagt: Íbúum þessa lands, þegnum þessa lands er ekki mismunað. Við stöndum ekki fyrir slíkri mismunun og reglugerð nr. 485/1995 mismunar ekki fólki og stuðlar ekki að þessari mismunun.