Almannatryggingar

Þriðjudaginn 02. júní 1998, kl. 23:50:12 (7342)

1998-06-02 23:50:12# 122. lþ. 141.23 fundur 348. mál: #A almannatryggingar# (lögheimilisskilyrði, slysatrygging sjómanna o.fl.) frv. 59/1998, heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 141. fundur, 122. lþ.

[23:50]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Brjóta þær reglur sem settar voru 1995 í bága við alþjóðasamþykktir? Brjóta þær í bága við mannréttindasáttmála? Það er spurningin sem hv. þm. lagði fram og hefur lagt fram áður. Reglugerðin hefði ekki verið sett ef það hefði verið sú tilfinning sem legið hefði til grundvallar þegar reglugerðin var sett og það er ekkert sem bendir til þess að við séum að brjóta alþjóðasamþykktir, enda var það ekki ætlunin. Ég held því að hv. þm. sem spurði hefði getað svarað sér sjálf varðandi þetta atriði. Varðandi það á hverju almannatryggingahugsjónin er byggð, þá er hún er byggð á sameiginlegri framfærsluskyldu hjóna. Hvort sem mönnum finnst það réttlátt eða óréttlátt þá er það grundvallarhugmyndin og öll uppbyggingin byggist á því. Og þegar þessi brtt. kemur fram þurfum við að skoða miklu fleiri þætti því þetta tengist hvað öðru, einmitt vegna þess að þetta er byggt upp á grundvallarhugmyndinni um gagnkvæma framfærsluskyldu. Þetta verða menn að hafa í huga þegar þeir ætla að gera þær grundvallarbreytingar sem hér eru lagðar fram og menn segja að heilbr.- og trmrn. hafi haft nægan tíma til að fara ofan í kjölinn á þessu máli. Við höfum ekki haft langan tíma og við höfum lagt okkur fram við að setja menn í vinnu við að skoða þetta frá grunni og við erum daglega að fá nýjar upplýsingar sem gerir það að verkum að það er erfitt að samþykkja þessa tillögu eins og ég sagði, eins og hún kemur af kúnni frá hv. þm., án þess að allt það sem býr að baki sé lagt til grundvallar.

Hv. þm. Margrét Frímannsdóttir fór mikinn áðan og sagði að ég hefði endurtekið í sífellu að ég gleddist þó yfir því að menn ætluðu að samþykkja frv. sem liggur fyrir frá ríkisstjórninni um verulegar réttarbætur, en ég segi það, hv. þm., að ég er farin að efast um að við getum glaðst yfir því, því mér sýnist að menn ætli að ræða aðra þætti, sem eru mikilvægir, ég viðurkenni fúslega að það eru mikilvæg málefni, en ef menn ætla að kaffæra sig án þess að ljúka því sem fyrir liggur, þá er ég orðin svartsýn á að menn ætli að ljúka þessum mikilvægu málum sem liggja á borðum þingmanna.