1998-06-03 00:21:04# 122. lþ. 141.25 fundur 520. mál: #A lögreglulög# (eftirlit með meðferð áfengis) frv. 78/1998, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 141. fundur, 122. lþ.

[24:21]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég vona svo sannarlega að þær breytingar sem hér er verið að gera geti orðið til þess að gera eftirlit allt með dreifingu á áfengi virkara og betra en það nú er. Ekki veitir af, eins og fram kom í máli frsm. allshn., hv. þm. Sólveigar Pétursdóttur.

Ég vil hins vegar ítreka það sem fram kom í máli mínu við umræðu um frv. til áfengislaga að hér er eins konar viðhengi við þær breytingar sem þar koma fram og eins og ég hef gert grein fyrir áður, þá verður eftirlitið með áfengissölu erfiðara og dýrara. Það verður dýrara og erfiðara og breytir engu um hvað menn setja í athugasemdir um þessar lagabreytingar eða hverju menn lýsa í ræðustól. Það er verið að gera kerfið allt þyngra í vöfum og erfiðara á allan hátt og kostnaðarsamara. Það er verið að taka peninga frá skattborgaranum og því miður kasta þeim peningum á glæ en svo sannarlega er mikil þörf á því að bæta eftirlit á þessu sviði. Ég hefði kosið að ríkisstjórnin hefði valið aðra leið en eftir að þetta hefur verið ákveðið þurfa menn að sjálfsögðu að taka höndum saman um að reyna að efla þetta eftirlit. En það verður torveldara vegna þessara frumvarpa ríkisstjórnarinnar. Því miður.