Tekjuskattur og eignarskattur

Miðvikudaginn 03. júní 1998, kl. 11:10:39 (7360)

1998-06-03 11:10:39# 122. lþ. 142.5 fundur 553. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall fyrirtækja, arðgreiðslur o.fl.) frv. 95/1998, PHB
[prenta uppsett í dálka] 142. fundur, 122. lþ.

[11:10]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Ég mæli fyrir brtt. á þskj. 1332 sem ég flyt ásamt hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni og felst í því að breyta hlutfallstölunni 30%, sem gert er ráð fyrir í frv., í 28%. Það merkir að skattar fyrirtækja verði 28% af hagnaði.

Herra forseti. Í þessu frv. er lögð til allveruleg breyting á skattlagningu arðs hjá fyrirtækjum. Í fjármagnstekjuskattanefndinni, sem ég tók þátt í fyrir nokkrum árum, var mikið rætt um skattlagningu arðs og það að gera áhættufé jafnstætt lánsfé hjá fyrirtækjum, þ.e. það ætti ekki að vera óhagstæðara fyrir fyrirtæki eða fyrir hluthafann að leggja fram áhættufé, þ.e. hlutafé, en leggja fram lánsfé. Það leiddi til þess að arður yrði frádráttarbær hjá fyrirtækinu nákvæmlega eins og vextir sem fyrirtækið greiddi. Það voru sett á þetta 7% mörk af hlutafé vegna þess að menn töldu að það væru eðlilegir vextir sem ætti að greiða af fyrirtækjum og ætti að vera skattfrjálst.

Í frv. er horfið frá þessari leið og þá aðallega með tilvísun í alþjóðlegar reglur, reglur sem gilda annars staðar. En það hefðu aðrar leiðir verið færar, t.d. að nota ígildisaðferð, þ.e. að frá þeim arði sem fenginn er inn í fyrirtækið, megi draga þann skatt sem þegar hefur verið greiddur af þeim arði frá þeim skatti sem á að greiða af arðinum hjá því fyrirtæki sem fær hann. Þetta er aðferð sem hefði mátt nota og hún var ekki farin. Þess vegna gat ég ekki staðið að áliti meiri hluta hv. efh.- og viðskn. þar sem ég taldi að sú leið, sem farin var, mismunaði áhættufé og lánsfé hjá fyrirtækjum. Það væri meiri hvati núna fyrir hluthafa að leggja fyrirtækinu til lánsfé en áhættufé og það væri neikvætt að mínu mati vegna þess að lánsfé er fé sem er óþolinmótt. Það bíður ekki eftir því að fyrirtækin skili hagnaði. Það þarf að borga vexti hvort sem hagurinn er góður eða slæmur og fyrirtækin verða miklu veikbyggðari, þola verr ágjöf þegar þau eru með mikið af lánsfé og lítið eigið fé. Þetta er þekkt. Ég tel að þetta sé afturför sem hér er lagt til, þ.e. að fara þá leið að skattleggja lánsfé hjá fyrirtækinu en ekki áhættufé.

Herra forseti. Starfsmenn ráðuneytisins hafa reiknað út að 33% skattur ásamt með skattfrelsi arðs upp að 7% af hlutafé gæfi nokkurn veginn það sama og 30% án skattfrelsisarðs og reyndar átti það að gefa pínulítið minna. Þetta var gert með ákveðnu úrtaki. Mér segir svo hugur að það úrtak hafi ekki verið rétt, að inni í því úrtaki hafi verið stærri hluti af stórum fyrirtækjum, fyrirtækjum sem hafi mjög lítið hlutafé en geysimikinn arð í hlutfalli við hlutaféð. Gömul og gróin fyrirtæki eins og Flugleiðir og sérstaklega Eimskip þar sem gengið er núna 7 munu fara miklu betur út úr þessari breytingu en fyrir vegna þess að 7% af hlutafé Eimskips er ákaflega lítil tala og ekki nema kannski 1% af gengi bréfanna á markaði. Eimskip mun því njóta þessarar skattalækkunar meira en mörg önnur fyrirtæki og hvaða fyrirtæki eru það sem munu þá verða að borga meira? Það eru litlu fyrirtækin, nýju fyrirtækin, fyrirtæki út um allt land sem ekki skila neinum ofsagróða. Það eru fyrirtækin sem skila huggulegum hagnaði, 7 eða 10% af hlutafé. Þau hafa hingað til ekki þurft að borga skatt af hagnaði eða lítinn skatt af hagnaði nákvæmlega eins og féð hefði verið fengið að láni. En þessi fyrirtæki munu þurfa að bera stóraukna skattbyrði, nefnilega úr engu upp í það að borga samkvæmt frv. 30% af hagnaðinum. Þetta er atlaga að nýsköpun, þetta er atlaga að fyrirtækjum út um allt land sem eru ekki höndluð á genginu 7 eða 8 heldur á genginu 1 eða 2 á markaði. Þetta er því mjög mikil mismunun og þó að meðaltalið sé eflaust gott og gilt er þessi breyting til þess að auka skattbyrði fyrirtækja sem hafa ekki mjög mikinn hagnað og sérstaklega nýrra fyrirtækja þar sem hlutaféð er umtalsverður hluti af eigin fé. Þessi tillaga er því andstæð nýsköpun og það tek ég undir með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni. Þess vegna gat ég ekki staðið að nefndaráliti hv. efh.- og viðskn.

[11:15]

Herra forseti. Þegar skattar eru hækkaðir, og við skulum gefa okkur sem dæmi að skattur á hagnaði fyrirtækja væri 100%, þá er náttúrlega ljóst að fyrirtæki mundu reyna af öllu afli að hafa engan hagnað og það geta þau auðveldlega vegna þess að hagnaður fyrirtækja er mismunatala. Það er mismunur á milli tekna fyrirtækisins og gjalda fyrirtækisins. Stjórnendur fyrirtækis hafa nokkuð í hendi sér hver gjöldin verða. Það má t.d. byggja fallega skrifstofu, það má t.d. kaupa skemmtilegar tölvur með stórum skjáum, óþarfar en skemmtileg leikföng. Eftir því sem skattprósentan er hærri þeim mun meiri hvati er til þess að reka fyrirtækið illa. Þeim mun meiri hvati er til þess að fyrirtækin fari út í einhverjar fjárfestingar eða kostnað sem skilar ekki hluthöfunum arði enda er það ekkert markmið í sjálfu sér þar sem ríkið tæki stóran hlut af hagnaðinum og þá er ég að tala um ef þetta væri skattlagt mjög hátt eins og var hérna í eina tíð, 50%. Þá var það líka þannig um hver áramót að menn þyrptust niður til tölvusala 31. des. til að kaupa og kaupa. Kaupa tölvur sem mynda kostnað til að minnka hagnaðinn sem menn sáu fyrir sér að þeir þyrftu að borga skatta af. Það sama var með alls konar ferðir til útlanda og annað slíkt þar sem menn sáu kannski von um einhver viðskipti en þar sem ríkið greiddi stóran hluta af kostnaðinum voru menn ekki eins naumir á að standa undir honum.

Skattlagning á hagnað fyrirtækja er nefnilega ekkert annað en niðurgreiðsla á kostnaði hjá þeim fyrirtækjum sem hafa hagnað og eftir því sem sú niðurgreiðsla er meiri, þeim mun meiri er vilji stjórnenda fyrirtækja til að fara út í alls konar kostnað sem skilar ekki endilega hagnaði. Þess vegna er hagnaður fyrirtækja sérstaklega viðkvæmur fyrir breytingum á skattprósentu, mjög viðkvæmur og miklu viðkvæmari en t.d. tekjur einstaklinga sem menn hafa verið að draga inn í umræðuna. Einstaklingur hefur sínar tekjur og hann þarf að hafa þær og hann getur ekki dregið frá alls konar kostnað. Það er ekki leyft þannig að hann verður að borga skatta af tekjum sínum. En fyrirtæki geta breytt kostnaðinum, meira að segja á gamlársdag þannig að hagnaðurinn verði eins og þeim líkar. Þess vegna er hagnaðurinn mjög viðkvæmur fyrir skattlagningunni. Það er mat mitt og hv. meðflm. míns, hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar, að 30% sé of hátt, 28% jafnvel of hátt en það er svipað og er núna verið að taka upp í öðrum norrænum löndum, 28% skatthlutfall á fyrirtæki.

Ljóst er að ekki má fara með þessa prósentu niður í 0% eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon gat áðan um. Það er að sjálfsögðu alveg út í hött. En ég hygg að 25% mundi gefa ríkissjóði meiri tekjur en 28% og ég veit ekki hvert markmið manna með skattlagningu er. Er það yfirleitt að ná tekjum til ríkissjóðs til þess að borga velferðarkerfið eða er markmiðið bara að leggja skatt á þennan óheyrilega gróða sem menn tala um? Mér finnst að hlutverk skattkerfis eigi fyrst og fremst að vera að afla tekna og það eigi að velja skattprósentuna þannig að hún gefi sem mestar tekjur til ríkissjóðs á öllum sviðum, ekki bara á þessum stofni einum sér heldur á þeim sviðum sem hann hefur áhrif á, t.d. laun í landinu.

Menn hafa alveg gleymt í umræðunni að fyrirtæki með hagnað borga yfirleitt miklu hærri laun en fyrirtæki með tap og það segir sig sjálft. Það er miklu meira gaman að vinna hjá fyrirtæki sem skilar hagnaði en fyrirtæki sem skilar endalausu tapi þar sem alltaf þarf að vera að skera niður. Þetta þekkja menn. Þess vegna eiga menn að hvetja fyrirtækin til hagnaðar. Það á að hvetja þau til hagnaðar sem gerir kröfu um betri stjórnun þannig að lág skattlagning á hagnað fyrirtækja er krafa um betri stjórnun og um leið hagnað sem skilar launþegunum hærri tekjum og ríkissjóði þar með hærri tekjusköttum hjá launþegunum þannig að þetta er ekki bara einstætt fyrirbæri í efnahagslífinu. Þetta er allt samtvinnað.

Svo vildi ég gjarnan að hv. þm. færu í gegnum það með mér: Hvað gerist með hagnað fyrirtækja, þ.e. það sem situr eftir eftir skatt? Hvert skyldi hann nú fara, hv. þm.? Hvert skyldi hagnaður fyrirtækjanna fara, þau 70% sem frv. gerir ráð fyrir að verði eftir í fyrirtækinu eða 72% sem ég og hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson gerum ráð fyrir að sitji eftir í fyrirtækinu? Hvert skyldi sá hagnaður fara? Hann fer í fjárfestingar. Hann fer í nýsköpun. Hann fer í rannsóknir. Hann getur ekki farið út úr fyrirtækinu. Andstætt einstaklingum sem nota það sem eftir stendur þegar búið er að borga skattinn að sjálfsögðu til að lifa af en síðan til eyðslu. Þá geta fyrirtækin ekki eytt þessum hagnaði nema til fjárfestingar eða til nýsköpunar o.s.frv. því að ef þau borga hluthöfunum arð, þurfa þeir að borga 10% skatt af þeim arði til viðbótar þeim skatti sem fyrirtækið er búið að borga. Það er því mjög mikilvægt að menn hafi í huga að lág skattprósenta á hagnað fyrirtækja leiðir til margra þátta. Í fyrsta lagi er meiri vilji hjá fyrirtækinu til að skila hagnaði. Hluthafarnir sjá að þeir fá meira út úr hagnaðinum en áður og þeir munu krefjast þess af stjórnanda fyrirtækisins að hann skili meiri hagnaði, sýni betri stjórnun, og ef hann gerir það ekki þá er hann vonandi bara rekinn og fenginn annar maður sem skilar betri hagnaði.

Í öðru lagi borga fyrirtæki með hagnað, sem leiðir af minni skattlagningu, hærri laun. Þau geta borgað hærri laun vegna betri stjórnunar og vegna þess að þau þurfa ekki að borga einhverja skatta. Það er mjög gott fyrir þjóðfélagið. Ég tel nefnilega að laun á Íslandi séu allt of lág og það er kannski afleiðingin af þeirri ofurskattlagningu sem hefur verið á hagnaði fyrirtækja hingað til ásamt með öðrum þáttum.

Svo er síðasti þátturinn sem er sá að þegar hagnaðurinn er lítið skattaður, þ.e. ef hann fer ekki inn í ríkissjóð, þá streymir hann til fjárfestinga, nýsköpunar sem skapar fleiri atvinnutækifæri, fleiri möguleika, gefur ungu fólki möguleika á að fá vinnu, vonandi háborgaða vinnu, og kemur í veg fyrir atvinnuleysi og það er mjög jákvætt. Ég stend því alveg á því að 28% skattprósenta á hagnað fyrirtækja muni skila ríkissjóði meiri tekjum, það muni örva fjárfestingar, það muni hækka laun og það muni bæta stjórnun hjá íslenskum fyrirtækjum.