Tekjuskattur og eignarskattur

Miðvikudaginn 03. júní 1998, kl. 11:37:52 (7362)

1998-06-03 11:37:52# 122. lþ. 142.5 fundur 553. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall fyrirtækja, arðgreiðslur o.fl.) frv. 95/1998, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 142. fundur, 122. lþ.

[11:37]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson lýsti áðan á mjög góðan hátt svokallaðri Leffer-kúrfu sem segir að þegar skattar eru hækkaðir þá lækka tekjur ríkissjóðs þegar komið er umfram ákveðið mark. Hann sagði að markmiðið hefði verið að hjálpa fyrirtækjum. Vissulega var það markmiðið að flytja skattbyrðina frá fyrirtækjum yfir á einstaklinga. En það sem gerðist óvart, herra forseti, var að hagnaður fyrirtækja jókst og tekjur ríkissjóðs minnkuðu ekki eins og menn ætluðu. Þær hafa ekki gert það. Síðan hafa menn reyndar verið að lækka skattbyrði á einstaklinga umtalsvert, bæði fyrrv. ríkisstjórn og sérstaklega núv. ríkisstjórn, þannig að skattbyrði einstaklinga hefur verið lækkuð aftur.

Af hverju kemur þetta? Af hverju er hægt að gera þetta? Það er vegna þess sem hv. þm. kallaði góðæri og hélt að það hefði dottið ofan af himnum. Góðærið dettur víst alltaf ofan af himnum. En það skyldi nú ekki vera að minnkun skattlagningar á hagnað fyrirtækja valdi góðærinu, og það að lækka skattprósentuna úr 50% niður í 33% hafi aukið vilja manna til að reka fyrirtækin vel og mynda hagnað og það sé ástæðan fyrir góðærinu sem hv. þm. nefndi en ekki eitthvað annað? Góðæri kemur ekki bara allt í einu út úr bláum himni.

Hann gat þess líka að uppsafnað tap væri búið. Það er rétt en þá mun líka hagnaður fyrirtækjanna sem undanfarin ár hefur eingöngu eða alfarið farið í fjárfestingar renna í auknum mæli til ríkisins sem þýðir það að fyrirtækin geta ekki fjárfest eins mikið og þegar þau voru að ná niður tapinu, og það getur haft alvarlegar afleiðingar ef menn grípa ekki strax til ráðstafana og auka vilja fyrirtækjanna til að fjárfesta. Við þurfum að standa vörð um góðærið.