Tekjuskattur og eignarskattur

Miðvikudaginn 03. júní 1998, kl. 11:40:06 (7363)

1998-06-03 11:40:06# 122. lþ. 142.5 fundur 553. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall fyrirtækja, arðgreiðslur o.fl.) frv. 95/1998, SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 142. fundur, 122. lþ.

[11:40]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Góðærið stafar m.a. af meiri og auknum aflaheimildum, betri verðþróun á afurðum okkar á erlendum mörkuðum en verið hefur og að aðilar sem áður fyrr voru ekki reiðubúnir til að leggja í fjárfestingar í nýtingu á orku eru reiðubúnir til þess vegna bætts árferðis í heiminum. Það mætti halda að hv. þm. Pétur Blöndal héldi að þetta hefði allt saman gerst vegna þess að skatthlutfall fyrirtækja hefði verið lækkað, að aflinn í sjónum hafi aukist vegna þess, að menn hefðu farið að fjárfesta í áliðnaði vegna þess. Þetta á bara ekkert skylt hvað við annað. Góðærið skapaðist ekki af því að menn lækkuðu skatthlutfallið af skattgreiðslu íslenskra fyrirtækja. Það var ekki forsendan fyrir góðærinu. Svo einfalt er málið ekki, langt í frá.

Síðan segir hv. þm. að það hafi gerst óvart í framhaldi af þeirri ákvörðun að heildarskatttekjur ríkisins af fyrirtækjarekstri hafi aukist. Það á bara ekkert skylt við þessa ákvörðun. Heildarskatttekjur ríkisins af rekstri atvinnufyrirtækja hafa aukist vegna uppsveiflunnar í efnahagslífinu. Fyrirtækin hafa haft meiri hagnað en þau höfðu áður. Góðærið hefur ekki farið fram hjá fyrirtækjunum frekar en öðrum, þannig að sú kenning að góðærið hafi orðið til vegna þess að menn lækkuðu skatta á fyrirtækjum er út í hött og sú skýring að auknar skatttekjur hins opinbera af rekstri atvinnufyrirtækja megi alfarið rekja til lækkunar á tekjuskattshlutfalli fyrirtækja er jafnmikið út í hött vegna þess að aukinn hagnaður og betri afkoma fyrirtækja á Íslandi, sem er orsökin fyrir auknum tekjum ríkisins af fyrirtækjasköttum, stafar ekki af þessari einu ástæðu. Þetta er fyrst og fremst afleiðing af góðærinu, virðulegi forseti.